Formúla 1

Litli Schumacher skákaði goðsögninni föður sínum og færist nær Formúlu 1

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mick Schumacher er á slóðum föður síns og kominn í B-deildina ári fyrr en gamli gerði.
Mick Schumacher er á slóðum föður síns og kominn í B-deildina ári fyrr en gamli gerði. vísir/getty
Fimm ár eru liðin síðan að Formúlu 1-goðsögnin Michael Schumacher lent í hryllilegu skíðaslysi í svissnesku ölpunum en hann hefur ekki sést síðan og lítið sem ekkert verið gefið út um líðan hans.

Sjöfaldi heimsmeistarinn mun aldrei keyra Formúlubíl á nýjan leik en það mun líklega ekki líða langur tími þar til að Schumacher nafnið mun sjást aftur í Formúlu 1.

Mick Schumacher, sonur Michael, er nefnilega mjög nálægt því að komast í Formúlu 1 en hann vann Formúlu 3 í ár og mun keppa fyrir Prema Racing í Formúlu 2 á næsta ári. Það er einskonar næst efsta deild í Formúlunni og þaðan koma flestir ökuþórar inn í Formúlu 1.





Schumacher endaði í tólfta sæti í Formúlu 3 á síðasta ári, þá 18 ára gamall en þessi 19 ára gamli piltur gerði sér lítið fyrir og valtaði yfir keppinauta sína í Formúlu 2 í ár. Hann vann á endanum með 57 stiga mun.

Ökuþórinn ungi er kominn á sama stað og faðir hans ári fyrr en Schumacher eldri sem var tvítugur þegar að hann komst í Formúlu 3000 sem var þá næsta skref á undan F1. Michael Schumacher staldraði stutt við þar og var kominn á samning hjá Benetton í Formúlu 1 innan við ári eftir að komast í Formúlu 3000.

Í Formúlu 2 eru allir bílar eins til þess að hæfileikar ökuþóranna fái að skína og þannig er auðveldara fyrir liðin í Formúlu 1 að veðja á næstu menn.



Michael Schumacher vann fimm heimsmeistaratitla í röð fyrir Ferrari en ítalska liðið Prema Racing er í góðu samstarfi við Ferrari og sér um stóran hluta af ökuþóraakademíu ítalska risans. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart ef Schumacher yngri klæðist rauðu innan fárra ára eins og faðir sinn.

Mick hefur lítið talað um föður sinn eins og reyndar allir sem tengjast Michael en í tilfinningaþrungnu viðtali við RTL fyrr á árinu opnaði hann sig aðeins.

„Pabbi spurði mig eitt sinn hvort ég vildi hafa þetta sem áhugamál eða verða atvinnumaður og ég sagðist að sjálfsögðu vilja verða atvinnumaður eins og hann,“ sagði Mick og pabbi hans kenndi honum trix eða tvö á yngri árum.

„Við keyrðum saman þegar að brautirnar voru lokaðar en við fengum að taka hringi. Hann var alltaf að kenna mér að fara hraðar. Það voru bestu tímar sem ég upplifði. Ég vil bara miða mig við þá bestu og pabbi var bestur. Hann er líka átrúnaðargoðið mitt,“ sagði Mick Schumacher.

Mick Schumacher vann Formúlu 3 og er kominn í Formúlu 2.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×