Körfubolti

Úrvalsdeildarliðin áfram eftir sigra á fyrstu deildarliðunum

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Ægir átti góðan leik í liði Stjörnunnar
Ægir átti góðan leik í liði Stjörnunnar vísir/bára
Þrír leikir fóru fram í Geysisbikar karla í kvöld, en allir leikirnir voru á milli úrvalsdeildarliða og fyrstu deildarliða. Úrvalsdeildarliðin unnu alla leikina.



Ríkjandi bikarmeistarar Tindastóls unnu þægilegan 26 stiga sigur á Fjölni, 97-71 en Philip Alawoya var atkvæðamestur hjá Tindastól með 27 stig og 17 fráköst. Brynjar Þór Björnsson skoraði 17 stig í leiknum og þá bætti Pétur Rúnar Birgisson við 14 stigum.



Srdan Stojanovic var stigahæstur Fjölnismanna með 20 stig.



Í Borgarnesi heimsóttu Selfyssingar heimamenn í Skallagrím og úr varð spennuleikur.



Skallagrímur vann að lokum sjö stiga sigur, 79-72 en Matej Buovac og Aundre Jackson voru stigahæstir í liði Skalllagríms með 20 og 19 stig. Hjá Selfossi var það Michael Rodriguez sem varð stigahæstur en hann skoraði 23 stig.



Að lokum heimsóttu Stjörnumenn Hveragerði en þar biðu þeirra Hamarsmenn. Finnski leikmaður Stjörnunnar, Antti Kanervo og Ægir Þór Steinarsson voru stigahæstir í liði Stjörnunnar en báðir skoruðu þeir 23 stig í 15 stiga sigri, 104-89. Everage Lee Richardson var stigahæstur í liði Hamars, en hann skoraði 29 stig, tók 11 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.



Tindastóll, Skallagrímur og Stjarnan verða því í pottinum er dregið verður í 8-liða úrslit Geysisbikarsins en á morgun kemur í ljós hvaða lið verður áttunda og síðasta liðið til þess að komast áfram, en þá mætast Þór Þorlákshöfn og Njarðvík í úrvalsdeildarslag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×