Erlent

Mexíkóskt stjórnmálapar fórst í þyrluslysi

Kjartan Kjartansson skrifar
Björgunar- og rannsóknarlið á vettvangi þyrluslyssins nærri Puebla-borg.
Björgunar- og rannsóknarlið á vettvangi þyrluslyssins nærri Puebla-borg. AP/Pablo Spencer
Ríkisstjóri Puebla-ríkis og eiginmaður hennar, öldungadeildarþingmaður á mexíkóska þinginu, fórust í þyrluslysi á aðfangadag. Auk hjónanna fórust tveir flugmenn þyrlunnar sem hrapaði skömmu eftir flugtak.

Martha Erika Alonso sór embættiseið sem ríkisstjóri fyrir miðhægri PAN-flokkinn fyrr í þessum mánuði og varð þá fyrsta konan til að stýra Puebla-ríki í miðhluta Mexíkó. Hún var 45 ára gömul. Eiginmaður hennar Rafael Moreno Valle gegndi embættinu frá 2011 til 2017. Hann var fimmtugur.

Bilun í þyrlunni er kennt um slysið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þá herma fréttir að fimmta manneskjan hafi farist. Þyrlan var á leiðinni til Mexíkóborgar en hrapaði aðeins um tíu mínútum eftir flugtak í Santa María Coronango nærri höfuðborg Puebla-ríkis.

Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó, segir að rannsókn verði hafin á orsökum slyssins til að leiða sannleikann í ljós.

Ríkisþing Puebla þarf að tilnefna tímabundinn ríkisstjóra þar til nýjar kosningar verða haldnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×