Fótbolti

Sara: Ég hef mætt, alltaf, á hverju ári. Í sjöunda skipti, loksins

Arnar Geir Halldórsson skrifar

Knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir er íþróttamaður ársins 2018 en kjörið var kunngjört á árlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í Hörpu í gærkvöldi og í kjölfarið tók Tómas Þór Þórðarson viðtal við Söru sem sjá má í heild sinni efst í fréttinni.

„Ólýsanleg tilfinning. Ég fékk alveg smá í magann. Þetta er ótrúlega mikill heiður. í fyrsta lagi að vera í topp 10 með þessu frábæra íþróttafólki á þeim lista og hvað þá að vinna. Þetta er mesti heiður sem hægt er að fá sem íþróttamaður á Íslandi,“ sagði Sara.

„Ég hef mætt, alltaf, á hverju ári og í sjöunda skipti loksins,“ sagði Sara þegar hún spurð hvort hún hefði íhugað að fylgjast með kjörinu úr fjarlægð í þetta skiptið. Þetta var í fyrsta sinn sem Sara er valin íþróttamaður ársins en sjö sinnum hefur hún verið á meðal tíu efstu.

2018 var litríkt hjá Söru en hún var í lykilhlutverki hjá Wolfsburg sem fór alla leið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Lyon. Wolfsburg eitt allra sterkasta lið heims og vann tvöfalt í Þýskalandi.

Þá var hún nálægt því að leiða íslenska landsliðið inn í lokakeppni HM en það gekk ekki eftir.

„Stundum þarf maður að fara í gegnum ákveðið mótlæti til að vinna þessa titla og verða betri. Hvernig maður bregst við mótlæti sýnir hvernig karakter maður er og ég hef alltaf toppað sjálfa mig eftir mótlæti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×