Erlent

Vilja sækja hershöfðingja Mjanmar til saka fyrir þjóðarmorð

Samúel Karl Ólason skrifar
Hundruð þúsunda Rohingja halda til í flóttamannabúðum í Bangladess.
Hundruð þúsunda Rohingja halda til í flóttamannabúðum í Bangladess. Vísir/AP

Nauðsynlegt er að sækja æðstu leiðtoga hers Mjanmar, sem einnig er þekkt sem Búrma, til saka fyrir þjóðarmorð gegn Rohingjamúslimum og glæpi gegn mannkyninu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn er hvattur til að taka málið til skoðunar.



Minnst 700 þúsund Rohingjar hafa flúið Mjanmar á undanförnum tólf mánuðum, samkvæmt BBC.



Í skýrslunni eru sex háttsettir hershöfðingjar nafngreindir og rök færð fyrir því að sækja eigi þá til saka. Þá er Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar og handhafi friðarverðlaunaNóbels, harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðarleysi sitt, þó stjórnvöld landsins hafi í raun enga stjórn yfir her Mjanmar.

Rannsakendur Mannréttindaráðsins tóku hundruð viðtala við gerð skýrslunnar og segja þeir að ódæði hersins vera fjölmörg. Fjölmörgum konum hafi verið nauðgað. Margir hafi verið pyntir, myrtir og settir í þrælkun. Ráðist hafi verið á börn og heilu þorpin hafi verið brennd til grunna.

Þar að auki byggði skýrslan á opnum gögnum eins og myndum og myndböndum auk gervihnattarmynda. Rannsakendurnir fengu ekki aðgang að Mjanmar og þá sérstaklega Rakhine-héraði, þar sem Rohingjar bjuggu.

Ríkisstjórn Mjanmar hefur ávalt haldið því fram að aðgerðir hersins hefðu beinst gegn vígamönnum en ekki Rohingjum í heild. Herinn komst til dæmis að þeirri niðurstöðu í „innri rannsókn“ að engir rohingjamúslimar hafi verið myrtir af hernum, engin þorp hafi verið brennd, engum hafi verið nauðgað og engu hafi verið stolið.



Sú innri rannsókn hefur verið harðlega gagnrýnd og sagt ekkert nema hvítþvottur.

Bandaríkin hafa sakað yfirvöld Mjanmar um þjóðernishreinsanir.



Yfirvöld Mjanmar hafna niðurstöðum skýrslunnar alfarið. Sendiherra landsins hjá Sameinuðu þjóðunum hélt því fram við BBC að skýrslan væri byggð á einhliða frásögnum Rohingja.

Til stendur að gefa út ítarlegri skýrslu í næsta mánuði.

 


Tengdar fréttir

Róhingjar geti ekki snúið aftur til heimkynna sinna

Ursula Mueller, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðarmála, segir stjórnvöld í Mjanmar ekki reiðubúin til að taka á móti flóttafólki úr þjóðflokki Róhingja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×