Golf

Írinn Harrington verður fyrirliði Evrópu í Ryderbikarnum 2020

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Padraig Harrington.
Padraig Harrington. Getty/Andrew Redington
Padraig Harrington fær stöðuhækkun hjá Ryderbikarliði Evrópu en þessi 47 ára gamli Íri mun nú taka við sem fyrirliði Evrópuliðsins. Ryderbikarinn fer næst fram í Wisconsin í Bandaríkjunum í september 2020.

Padraig Harrington tekur við stöðunni af Dananum Thomas Björn sem var fyrirliðinn þegar Evrópuliðið vann Ryderbikarinn í september síðastliðnum. Harrington var aðstoðarfyrirliði Björn á mótinu.





Harrington verður aðeins annar Írinn sem er fyrirliði Evrópuliðsins en landi hans Paul McGinley var fyrirliði Evrópuliðsins sem vann Ryderbikarinn árið 2014.  

Harrington hefur verið aðstoðarfyrirliði Evrópu í þremur síðustu Ryderbikarkeppnum. Hann aðstoðaði fyrst McGinley árið 2014, þá Darren Clarke árið 2016 og svo Thomas Björn á síðasta ári.

Padraig Harrington þekkir það líka vel að spila fyrir Evrópu í Ryderbikarnum en hann var sex sinnum í Evrópuliðinu á árunum 1999 til 2010 og vann Ryderbikarinn alls fjórum sinnum sem spilari eða árin 2002, 2004, 2006 og 2010.

Stjörnukylfingar eins og þeir Rory McIlroy og Justin Rose studdu það að Padraig Harrington tæki við fyrirliðastöðunni að þessu sinni. Luke Donald og Lee Westwood voru líka nefnir sem mögulegir kostir.

Evrópuliðið burstaði síðasta Ryderbikar 17,5-10,5 og hefur fagnað fjórum sinnum sigri í síðustu fimm Ryderbikarkeppnum og alls unnið Ryderbikarinn sjö sinnum (í níu tilraunum) á þessari öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×