Dómaranefnd KSÍ hefur ákveðið að ekki verði notast við ABBA-spyrnuröðina í öllum mótum frá og með 1. janúar 2019. Í stað þess verður notast við hið gamla hefðbundna fyrirkomulag við framkvæmd vítaspyrnukeppna. Þetta kemur fram á heimasíðu knattspyrnusambandsins.
Einn bikarúrslitaleikur réðst eftir ABBA spyrnuröð en Stjarnan tryggði sér sinn fyrsta bikarmeistaratitil síðasta sumar eftir 4-1 sigur á Breiðabliki í vítakeppni.
Blikar tóku aðra og þriðju spyrnu sína hvora á fætur annarri og klikkuðu á þeim báðum. Önnur fór yfir en hin var varin.
Blikar fóru líka í ABBA vítakeppni í undanúrslitaleiknum á móti Víkingi Ólafsvík og unnu hana 4-2.
Hætt við ABBA spyrnuröð í vítaspyrnukeppnum.https://t.co/iPxoGCkqCX
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) January 3, 2019
Alls fóru fram þrjár ABBA vítakeppnir í úrslitakeppni Mjólkurbikars karla sumarið 2018, ein í sextán liða úrslitum, ein í undanúrslitum og ein í bikarúrslitaleiknum. Ein ABBA vítakeppni fór fram í Mjólkurbikar kvenna og var hún í átta liða úrslitum keppninnar.
IFAB (Alþjóðanefndar knattspyrnusambanda) hefur hætt við fyrirætlan sína um að innleiða svokallaða ABBA-spyrnuröð í vítaspyrnukeppnum í knattspyrnulögin f.o.m. keppnistímabilinu 2019-20.
Ástæðan mun vera sú að niðurstöður tilrauna sem gerðar hafa verið með þetta fyrirkomulag hjá mörgum aðildarþjóða FIFA (þ.m.t. á Íslandi á síðasta ári) hafa nær einróma verið neikvæðar og það jafnframt hlotið lélegan hljómgrunn hjá knattspyrnuaðdáendum sem fundist hefur það bæði flókið og torskiljanlegt.
Í þessu sambandi hafa verið gerðar viðeigandi breytingar á íslenska texta knattspyrnulaganna.