Erlent

Maður drepinn í Vísindakirkjunni í Ástralíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglan á vettvangi við höfuðstöðvar Vísindakirkjunnar í norðurhluta Sydney.
Lögreglan á vettvangi við höfuðstöðvar Vísindakirkjunnar í norðurhluta Sydney. Vísir/EPA
Sextán ára gamall drengur hefur verið handtekinn, grunaður um að hafa stungið mann til bana og sært annan í húsakynnum Vísindakirkjunnar í Sydney í Ástralíu í dag. Lögreglan segir að þeir sem urðu fyrir árásinni hafi báðir verið starfsmenn kirkjunnar.

Maðurinn sem lést var 24 ára gamall Taívani. Árásin er sögð hafa átt sér stað í innkeyrslu höfuðstöðva safnaðarins eftir að drengurinn var beðinn um að hafa sig á brott um klukkan 12:30 að staðartíma. Tilkynnt hafði verið um heimilisófrið þar í gær, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Þegar lögreglumenn komu á staðinn sleppti drengurinn 25 sentímetra löngum hníf sem hann hafði notað til að ráðast á mennina tvo. Lögreglan segir að drengurinn hafi haft „lögmæta ástæðu“ til að vera á svæðinu. Starfsfólkið hafði beðið hann um að fara vegna uppákomunnar daginn áður.

Miðstöð Vísindakirkjunnar í Sydney er sú stærsta á vegum hennar utan Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×