Erlent

Chang'e 4 lenti fyrst geimfara á fjarhlið tunglsins

Gunnar Reynir Valþórsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Ein af fyrstu myndunum frá fjarhlið tunglsins sem Chang'e 4 sendi til jarðar.
Ein af fyrstu myndunum frá fjarhlið tunglsins sem Chang'e 4 sendi til jarðar. Geimferðastofnun Kína/AP
Kínverjar segja að þeim hafi tekist að lenda Chang'e 4, ómönnuðu geimfari, á fjarhlið tunglsins, en það væri fyrsta sinn sem slíkt tekst í geimsögunni. Chang'e 4 lenti á Suðurpóls-Aitken-dældinni rétt fyrir klukkan hálfþrjú í nótt og vélmenni um borð er þegar tekið til við rannsóknir á jarðlögum og yfirborði tunglsins á þessum hluta sem snýr ávallt frá jörðu.

Myndir af yfirborði tunglsins hafa þegar borist til jarðar frá Chang'e 4 og hafa kínverskir ríkisfjölmiðlar birt þær. Vegna þess að fjarhlið tunglsins snýr alltaf frá jörðinni fara samskipti við geimfarið fram í gegnum sérstakt fjarskiptagervitungl á braut um tunglið.

Markmið Chang'e 4-leiðangursins er að rannsaka Von Kármán-gíginn svonefnda í Suðurspólsdældinni. Talið er að hún hafi myndast snemma í jarðfræðilegri sögu tunglsins. Hún er einn dýpsti gígur sólkerfisins, meira en 2.500 kílómetrar að þvermáli og þrettán kílómetra djúpur. Loftsteinninn sem myndaði dældina var svo stór að hann er talinn hafa farið í gegnum jarðskorpu tunglsins og niður í möttulinn. Kínversku vísindamennirnir ásælast sérstaklega bergmola sem gætu hafa komið upp úr möttlinum og hraun sem vall upp úr iðrum tunglsins, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Þetta er í annað sinn sem Kínverjar senda geimfar til tunglsins en þeir voru heldur seinir upp úr startholunum í geimkapphlaupinu og komu til að mynda geimfara ekki á sporbaug um jörðu fyrr en árið 2003, langt á eftir Rússum og Bandaríkjamönnum sem hafa leitt kapphlaupið hingað til. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×