Erlent

Bolsonaro gengst undir aðgerð

Atli Ísleifsson skrifar
Jair Bolsonaro mun gangast undir aðgerð á sjúkrahúsi í Sao Paulo.
Jair Bolsonaro mun gangast undir aðgerð á sjúkrahúsi í Sao Paulo. Twitter
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, mun gangast undir aðgerð í dag þar sem ristilstómi verður fjarlægður og þarmar hans tengdir saman á ný. Með aðgerðinni eru læknar að fylgja eftir aðgerð sem Bolsonaro gekkst undir eftir að hafa orðið fyrir stunguárás á götum úti í kosningabaráttunni í september.

Forsetanum hefur verið ráðlagt af læknum að hvílast í tvo sólarhringa að lokinni aðgerð og mun varaforsetinn Hamilton Mourao þá vera starfandi forseti landsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá skrifstofu forsetans.

Jair Bolsonaro og varaforsetinn Hamilton Mourao.Getty
Brasilíumenn hafa síðustu daga þurft að glíma við afleiðingar alvarlegs slyss í ríkinu Minas Gerais þar sem stífla brast í járngrýtisnámu. Slysið var til þess að gríðarlagt magn aurs lagði yfir nálæg svæði. Staðfest er að 58 manns hið minnsta hafi farist og er mikils fjölda enn saknað. Það kemur því til kasta Mourao að bregðast við afleiðingar slyssins næstu klukkutímana.

Bolsonaro vann sigur í forsetakosningunum í Brasilíu á síðasta ári og sór hann embættiseið á nýársdag. Hann skráði sig inn á sjúkrahús í Sao Paulo í gær og birti af því tilefni myndband á Twitter þar sem hann ræddi meðal annars slysið í Minas Gerais.

 

Búist er við að aðgerðin taki um þrjár klukkustundir og að forsetinn þurfi að dvelja á sjúkrahúsinu í um tíu daga. Er búið að koma þar upp búnaði til að Bolsonaro geti sinn embættisskyldum á meðan hann jafnar sig að fullu.

Að neðan má sjá myndband af stunguárásinni sem varð í Minas Gerais í september.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×