Erlent

Óttast að margir hafi farist eftir að stífla brast í Brasilíu

Sylvía Hall skrifar
Björgunaraðilar að störfum.
Björgunaraðilar að störfum. EPA/PAULO FONSECA
Talið er að margir hafi farist þegar stífla brast í suðaustur Brasilíu í dag nærri bænum Brumadinho. Upphaflega var gefið út að tvö hundruð væri saknað og hafa svæði nærri stíflunni verið rýmd. BBC greinir frá.

Ekki hefur verið gefið út hve margir eru taldir af en óttast er að margir hafi týnt lífi. Sagði bæjarstjóri BrumadinhoAvimar de Melo, í samtali við blaðið Hoje em Dia að í það minnsta fimmtíu væri látnir. 

Jair Bolsonaro, nýkjörinn forseti landsins, hyggst heimsækja svæðið á morgun ásamt umhverfisráðherra landsins.



Aur flæddi yfir nærliggjandi byggð eftir að stíflan brast og eru aðstæður á svæðinu erfiðar. De Melo segir erfitt að gefa nánari upplýsingar þar sem hlutirnir séu að þróast mjög hratt þessa stundina. Slökkviliðið á svæðinu hefur sent þrjár þyrlur á vettvang til þess að aðstoða við björgunaraðgerðir.

Stíflan er í eigu Vale, stærsta námufyrirtækis Brasilíu, og segja forsvarsmenn fyrirtækisins allt kapp vera lagt á að tryggja öryggi íbúa og bjarga þeim sem eru nærri svæðinu. 

Aðeins fjögur ár eru liðin frá því að stífla í Minas Gerais í Brasilíu brast þar sem nítján manns létu lífið og var hún einnig í eigu Vale. Er slysið því talið vera eitt versta umhverfisslys Brasilíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×