Innlent

Segir 36 stunda „blackout“ Gunnars Braga geta bent til heilabilunar

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Þór Ævarsson og Gunnar Bragi Sveinsson.
Ólafur Þór Ævarsson og Gunnar Bragi Sveinsson. Vísir
Útskýringar Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins, um að hafa fallið í 36 klukkustunda óminni um leið og hann gekk inn á barinn Klaustur í nóvember síðastliðnum hefur vakið mikla athygli.  Geðlæknir hefur nú stigið fram og bent á að þetta „blackout“ Gunnars Braga geti verið alvarlegt merki um tímabundna heilabilun. 

Gunnar lét þessi ummæli falla í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem var sendur út í gær. Þar lýsti Gunnar Bragi algjöru „blackout“ eða minnisleysi. Hann sagðist ekki muna hvað hann gerði og hann hefði þurft að hlusta á upptökurnar frá Klaustri til að heyra hvaða ummæli voru látin falla á barnum. Hann sagðist einnig hafa týnt fötunum sínum þessa nótt. 

„Það er algjört „blackout“. Það hefur ekki komið fyrir mig áður. Þannig að ég velti því fyrir mér hvað í fjandanum gengur á þarna,“ segir Gunnar Bragi í þættinum. 

Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir hefur ritað nokkur orð um „Blackout“ á vef Forvarna ehf. Hann segir að „blackout“ eða minnisleysi vegna áfengisdrykkju sé vegna alvarlegrar starfsemistruflunar í minnisstöðvum heilans. 

„Ef slíkt ástand hefur varað í einn eða fleiri sólarhringa er það alvarlegt merki um tímabundna heilabilun. Ástæður eru yfirleitt mjög mikil áfengisneysla eða langvinnt áfengisvandamál. Einstaklingur með slík einkenni er ekki vinnufær. Ef hann gegndi ábyrgðarstarfi, sem t.d. flugstjóri, væri hann sendur í langt veikindaleyfi og kæmi ekki til vinnu fyrr en eftir ítarlegar rannsóknir og áfengismeðferð,“ segir Ólafur.

 Hann hefur starfað að lækningum og kennslu við háskólageðdeildir erlendis og hérlendis en hann lauk doktorsprófi frá læknadeild Gautaborgarháskóla árið 1998. Er Ólafur stofnandi Forvarna ehf. sem reka Lækninga- og fræðslusetur. 

 




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×