Sýningar á annarri þáttaröðinni hófust á öðrum degi jóla en í tilkynningunni kemur fram að hliðrað áhorf þáttanna, það er áhorf utan línulegrar dagskrár, meðal annars í spilara RÚV á netinu og efnisveitum á borð við Frelsisþjónustu fjarskiptafyrirtækja, hefur mælst liðlega helmingur af heildaráhorfi og aldrei mælst hærra, að því er fram kemur í tilkynningu um áhorf þáttanna frá RVK Studios og Ríkisútvarpinu.
Í tilkynningunni segir að heildaráhorfið á þættina til þessa sé með því hæsta sem mælst hefur á leikið efni í íslensku sjónvarpi.
Sýning seríunnar er hálfnuð, búið að sýna fimm þætti af tíu, en í tilkynningunni segir að búast megi við að aðrir þættir í seríunni nái samskonar áhorfi eða meiru, eins og raunin varð með fyrstu þáttaröðina þar sem áhorfið jókst eftir því sem nær dró endalokum.
Í tilkynningunni kemur fram að áhorfið á aðra seríu Ófærðar sé met og að áhorfið muni halda áfram að aukast þar sem mælingar sýna að hliðaráhorf sé enn all nokkurt á þá þætti sem sýndir hafa verið til þessa.
Sigurjón Kjartansson handritshöfundur Ófærðar birti skýringarmynd á Twitter um helgina til að hjálpa áhorfendum að skilja tengslin á milli persóna í þáttaröðinni. Virðist skýringarmyndin hafa mælst vel fyrir en á annað þúsund manns hafa líkað við myndina.
Gjöriði svo vel! #ofaerð pic.twitter.com/RBsr5a1d3z
— Sigurjón Kjartansson (@Skjartansson) January 20, 2019