Körfubolti

Valur sló bikarmeistarana úr leik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Heather Butler var atkvæðamest Valskvenna í kvöld
Heather Butler var atkvæðamest Valskvenna í kvöld vísir/vilhelm
Valskonur gerðu sér lítið fyrir og slógu tvöfalda bikarmeistara Keflavíkur úr leik í 8-liða úrslitum Geysisbikars kvenna í körfubolta í kvöld.

Valur var með tveggja stiga forystu eftir fyrsta leikhluta í Keflavík í kvöld en Valskonur komu sér upp þægilegu 11 stiga forskoti fyrir hálfleikinn, staðan var 28-39 þegar flautað var til hálfleiks.

Bilið breikkaði svo bara í þriðja leikhluta og Keflavík náði aldrei að koma með almennilegt áhlaup. Þegar upp var staðið vann Valur mjög öruggan 71-89 sigur.

Heather Butler var stigahæst í liði Vals með 23 stig og Helena Sverrisdóttir bætti 17 við. Brittanny Dinkins setti 39 stig fyrir Keflavík og var þeirra langbesti leikmaður.

Breiðablik gengur lítið í Domino's deildinni en Blikar áttu ekki í vandræðum með 1. deildar lið ÍR í Smáranum. ÍR skoraði aðeins 17 stig í fyrri hálfleik og var staðan orðin 35-17 þegar gengið var til búningsherbergja.

ÍR náði að halda nokkuð vel við Blika í þriðja leikhluta en heimakonur keyrðu aftur á gestina í síðasta fjórðungnum og unnu 36 stiga sigur 80-44.

Ivory Crawford skoraði 24 stig fyrir Breiðablik og Ragnheiður Björk Einarsdóttir setti 10. Hjá ÍR var Birna Eiríksdóttir stigahæst með 12 stig.

Þá er orðið ljóst hvaða lið mæta í úrslitavikuna í Laugardalshöllinni í febrúar, það verða Breiðablik, Valur, Snæfell og Stjarnan. Dregið verður í undanúrslitin í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×