Þetta sagði Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli, um Ísfirðinginn Þormóð Eiríksson þegar Jói Pé og Króli tóku við verðlaunum fyrir besta lag ársins á Hlustendaverðlaunum Bylgjunnar, FM957 og X-ins um liðna helgi. Lagið sem vann heitir Í átt að tunglinu, eftir þá Þormóð, Jóa Pé og Króla.
Plata hans, Hetjan úr hverfinu, var valin plata ársins á Hlustendaverðlaununum en Þormóður samdi fimm af átta lögum plötunnar ásamt Herra Hnetusmjöri, þar á meðal smellinn Keyra.
Ef þú ert enn í vafa um hvort þú hafir heyrt lag eftir Þormóð þá ber helst að nefna að hann samdi lagið B.O.B.A. ásamt þeim Jóa Pé og Króla sem gerði allt vitlaust árið 2017 og var valið lag ársins á Hlustendaverðlaununum í fyrra.
KBE er fjöllistahópur sem Herra Hnetusmjör stofnaði en honum er ætlað að gefa ungum og efnilegum tónlistarmönnum tækifæri á að láta ljós sitt skína.
Líkt og Króli sagði á Hlustendaverðlaununum eru erlendir tónlistarmenn farnir að banka á dyrnar hjá Þormóði og margir sem sækjast eftir því að vinna með honum.
Byrjaði ungur að semja
En allt hófst þetta þegar hann byrjaði í kringum átta ára aldur að læra á gítar á Ísafirði. Þormóður var ekki sá duglegasti að sinna heimanáminu en spilaði þess í stað á gítarinn af miklum móð og fór fljótlega að semja.Hann var skömmu síðar farinn að sauma saman hljómaganga og semja laglínur við þá. Þormóður tók heimilistölvuna trausta taki og sótti sér forritið FL Studio þar sem hann gat teiknað upp takta og laglínur og útsett sína eigin tónlist.
Hann sat löngum stundum einn í herberginu sínu að fikta við tónlistarsköpun og festi síðan kaup á hræódýrum hljóðnema sem hann notaði til að búa til lög með vinum sínum. Þegar hann hóf nám við Menntaskólann á Ísafirði var hann augljós kostur þegar semja þurfti lög fyrir árshátíðir og ýmsa viðburði.
Jói Pé og Króli römbuðu inn
Í eitt skiptið þegar Þormóður og félagarnir voru að vinna að lagi rambaði tvíeykið Jóhannes Damian Patreksson og Kristinn Óli, betur þekktir sem Jói Pé og Króli, inn í upptökuferlið.„Þannig kynntist ég Jóa Pé og Króla og við enduðum á að gera lagið O shit á staðnum og erum búnir að vinna saman síðan,“ segir Þormóður.
Um þetta leyti höfðu Jói Pé og Króli gefið út plötuna Ananas en höfðu ekki sprungið út eins og raun varð vitni síðar meir. Þormóður samdi með þeim lögin O Shit og Sagan af okkur sem rataði á aðra plötu félaganna sem fékk nafnið Gerviglingur, en þar var einnig að finna ofursmellinn B.O.B.A.
Þormóður um það hvernig B.O.B.A varð til:
Stuttu eftir að ég, JóiPé og Króli hittumst á Ísafirði þá byrjaði ég að senda þeim takta sem ég var að gera í stúdíói á Ísafirði. Þeir sendu mér skilaboð og töluðu um að þeir vildu gera „Partýlag”. Ég sendi þeim Beat stuttu seinna sem hét á þeim tíma „Child’s Play” og nokkrum klukkutímum seinna sendu þeir til baka demo sem hét "Vondar Gellur”. Ég var heima og um leið og ég heyrði demoið þá fríkaði ég út, vissi að við værum með eitthvað gott í höndunum. Þannig ég brunaði upp í studio til að breyta taktinum og klippa lagið til. Í fyrsta demoinu var annað viðlag sem var parodía af lagi með 12:00.
Á vinunum margt að þakka
Þormóður segist hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa átt traustan vinahóp á Ísafirði sem hann leyfði ávallt að heyra ný lög frá sér. Til að byrja með einbeitti Þormóður sér að EDM-tónlist, eða rafdanstónlist, og segist eiga vinum sínum margt að þakka.„Ég vorkenni þeim að hafa þurft að hlusta endalaust á allt bullið frá mér,“ segir Þormóður hlæjandi. „Ég reyndi alltaf að fylgjast með viðbrögðunum þeirra þegar ég spilaði fyrir þá demo. Það sýndi mér hvort ég væri að gera gott stöff eða ekki. Ef þeir voru ekki að hreyfa sig við tónlistina, þá þyrfti ég að endurhugsa taktinn. Ég held að það sé aðalþátturinn í því hvernig ég hef þroskast sem tónlistarmaður, að skilja hvað hlustendurnir vilja,” segir Þormóður.
Tónlistarmenn hafa margir hverjir lýst því hvernig viðbrögð áhorfenda breyta oft á tíðum viðhorfi þeirra til tónlistarsköpunar. Þeir semja mögulega lag í einrúmi sem slær í gegn og svo standa þeir fyrir framan þúsundir áhorfenda sem öskra á meira.
Þormóður um það hvernig lagið Keyra varð til:
Herra Hnetusmjör veit alltaf nákvæmlega hvað hann vill. Hann var búinn að sýna mér fullt af lögum sem eru með ógeðslega þéttum bassalínum, hann talaði um að hann vildi gera eitthvað svipað þessum lögum. Ég gerði taktinn sama kvöld, uppí rúmi, með heyrnartól. Var frekar efins með þennan takt þar sem hann var bara bassalína og trommur, en kærastan mín sagði mér að ég þyrfti að sýna Herra Hnetusmjöri hann. Svo hitti ég hann daginn eftir upp í stúdíói og sýndi honum beatið, örfáum mínútum síðar var hann kominn með verse og viðlag. Og um leið og ég heyrði Herra Hnetusmjör rappa yfir beatið þá meikaði allt sens. Keyra er eitt af þessum lögum þar sem við vissum báðir að við værum með eitthvað gott í höndunum.
Áttaði sig ekki á stærð bombunnar
Þegar B.O.B.A. var að slá í gegn bjó Þormóður á Ísafirði og varð ekki beint var við það í sínu nærumhverfi hversu stórt lagið var orðið, þó hann hefði vissulega heyrt það í útvarpinu. Það átti þó eftir að breytast þegar hann fór suður til Reykjavíkur haustið 2017.„Þá fór ég að fylgjast með Jóa Pé og Króla flytja það á tónleikum á Októberfest og það voru allir dansandi og syngjandi með því. Það var ótrúleg tilfinning að sjá fólk bregðast svona við einhverju sem maður bjó til,“ segir Þormóður.
Hann segir þetta stóran þátt við að semja tónlist að fylgjast með viðbrögðum fólks. „Oft þegar ég mæti á gigg þá sér maður svolítið hvaða tempo er að virka,“ segir Þormóður.
„Við höfum gert tilraunir með lög á tónleikum til að sjá hvernig þau virka á fólkið. Stundum höfum við breytt þeim út frá viðbrögðunum. Maður þarf að kynnast áheyrendum til að skilja hvað þeir vilja,“ segir Þormóður.
Hetjan úr HverfinuView this post on Instagram
A post shared by Þormóður Eiríksson (@thormodureiriksson) on Oct 14, 2018 at 10:00pm PDT
Er meira en taktasmiður
Hann vill meina að hann sé ekki bara taktasmiður. Aðkoma hans að lögunum er mun meiri en það. „Ég bý til taktinn, það er fyrsta skrefið. Ég klára undirspilið en svo þegar kemur að því að taka upp raddir þá hef ég áhrif á það líka. Ég reyni alltaf að vera hluti af laginu þangað til það er tilbúið. Ég er ekki bara að senda takta og fá raddir til baka,“ segir Þormóður.Samstarf hans með Jóa Pé og Króla varð til þess að vekja athygli Herra Hnetusmjörs og Hugins. Það náði einnig eyrum hins íslensk ættaða Davíð Ólafssyni sem starfar undir listamannsnafninu DAVID44 í Danmörku. Samstarfið við Davíð hefur orðið til þess að Þormóður er farinn að vinna með öðrum dönskum listamönnum en segir of snemmt að segja frá því hverjir það eru.
Hann hefur einnig unnið nýverið með Emmsjé Gauta og tónlistarkonunni Ingileif og segir nokkra aðra íslenska tónlistarmenn hafa sett sig í samband við sig en getur ekki sagt frá því að svo stöddu hvaða verkefni það eru að svo stöddu.
Miðað við fyrri störf þá ætti það ekki að verða ólíklegt að Þormóður muni eiga eitt af lögum þessa árs, líkt og síðastliðin ár.
Þormóður um það hvernig lagið Veist af mér varð til:
Ég og Huginn sömdum þetta lag acoustic. Ég sat og spilaði á gítar og hann raulaði laglínur yfir. Viðlagið kom fyrst og gerði okkur geðveikt spennta fyrir laginu. Svo þegar ég ætlaði að eiga eitthvað við upptökuna á röddinni, þá kom óvart þessi djúpa Robot-rödd, og ég gerði taktinn í kringum hana. Við tókum okkur góðan tíma í að klára lagið. Það sem mér finnst óhefðbundið og jafnvel skemmtilegast við þetta lag er að versið endurtekur sig ekki. Við vildum að lagið væri alltaf þróast og kynna nýjar melódíur.