Körfubolti

Ráðið í starf landsliðsþjálfara í lok febrúar 

Hjörvar Ólafsson skrifar
fréttablaðið
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta hefur verið án þjálfara síðan Ívar Ásgrímsson lét af störfum sem þjálfari liðsins í lok nóvember. Ívar sem hafði þjálfað íslenska liðið síðan árið 2014 hætti störfum eftir tap gegn Bosníu Hersegóvínu.

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuboltasambands Íslands, KKÍ, segir í samtali við Fréttablaðið að sambandið hafi nýtt tímann frá því að undankeppninni lauk til þess að fara yfir stöðuna. Afreksnefnd KKÍ sé með málið á sinni könnu og ráðning á næsta landsliðsþjálfara sé í góðum farvegi.

„Við höfum verið að hugsa málin, hvaða aðilar komi til greina í starfið, síðan Ívar hætti. Afreksnefnd KKÍ sér um að velja það hverjir koma til greina í starfið og leggur svo fram tillögu til stjórnar sambandsins sem sér um að semja við þann sem þykir hentugastur í starfið. Ég býst við því að það verði farið á fullt hvað undirbúning þessarar ráðningar varðar um miðjan febrúar og þjálfari svo ráðinn um mánaðamótin febrúar og mars,“ segir Hannes.

„Það eru komin nöfn á blað og við munum svo ræða við þá sem eru á blaði hjá okkur upp úr miðjum febrúar. Næsta verkefni hjá liðinu er þátttaka á Smáþjóðaleikunum í maí þannig að það liggur ekkert á ennþá að ráða þjálfara fyrir liðið. Það má hins vegar ekki gerast seinna en í byrjun mars þannig að næsti þjálfari fái tíma til þess að undirbúa liðið fyrir næstu leiki liðsins. Við munum vanda til verka og ráða þjálfara sem er í stakk búinn til þess að leiða uppbyggingu liðsins næstu árin,“ sagði Hannes að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×