Sigurjón Sighvatsson kvikmyndagerðar- og athafnamaður hefur selt hinum þýska Sven Jacobi jörðina Hellisfjörð í samnefndum firði. Austurfrétt greindi frá þessu í gær. Jacobi mun vera frumkvöðull í markaðsmálum í heimalandi sínu, framkvæmdastjóri og stofnandi Neo Advertising sem er með bækistöðvar í Hamborg.
Nokkra athygli vakti þegar Sigurjón festi kaup á jörðinni árið 2000 en hann stóð þá í umfangsmiklum fjárfestingum á Íslandi. Sigurjón á ættir að rekja austur og sagðist þá vilja tengjast upprunanum nánar. Vísi tókst ekki að ná tali af Sigurjóni vegna þessara tíðinda. Jarðarkaup eru umdeild á Íslandi, einkum jarðarkaup erlendra ríkisborgara. Og hafa þau verið mjög til umfjöllunar að undanförnu.
Að sögn Austurfréttar fundaði Jacobi með bæjarráði Fjarðarbyggðar í morgun ásamt lögmanni sínum og var þá farið yfir áætlanir hans með fjörðinn, að því er fram kemur í fundargerð.
Býlið Hellisfjörður, sem er eyðibýli, stóð í botni fjarðarins sem er sunnan Norðfjarðar. Austurfrétt segir að jörðin sé um 1900 hektarar og á henni stendur sumarhús, byggt 1970. „Hægt hefur verið að veiða silung og fugla, einkum í ósi Hellisfjarðarár. Jacobi á jörðina í gegnum Vatnsstein ehf., en samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá er tilgangur félagsins eldi og ræktun í ferskvatni.“
Engin búseta hefur verið í firðinum frá árinu 1952. Ekki er hægt að aka til Hellisfjarðar og þurfa þeir sem þangað vilja að fara annað hvort að sigla þangað eða fara fótgangandi frá Norðfirði. Vísir reyndi að ná tali af bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar vegna málsins en án árangurs.
Svíþjóð
Ísland