Íslenski boltinn

Þrjár Valskonur með þrennu í sama leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir er aftur komin af stað og raðar inn mörkum í Reykjavikurmótinu.
Margrét Lára Viðarsdóttir er aftur komin af stað og raðar inn mörkum í Reykjavikurmótinu. Vísir/Stefán
Kvennalið Vals verður mjög erfitt viðureignar í fótboltanum í ár ef marka má frammistöðu liðsins á Reykjavíkurmóti kvenna.

Valsliðið vann sinn fjórða sigur í röð í mótinu í gær nú 13-0 sigur á Þrótti. Þrjár Valskonur skoruðu þrennu í leiknum og þar á meðal var varamaðurinn Guðrún Karítas Sigurðardóttir.

Margrét Lára Viðarsdóttir er komin aftur á fulla ferð en hún skoraði þrennu í fyrri hálfleik og fór svo af velli í hálfleik. Elín Metta Jensen skroaði tvö mörk í fyrri hálfleiknum en staðan var 6-0 í hálfleik.

Hlín Eiríksdóttir og Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoruðu síðan báðar þrennur í seinni hálfleiknum en hin mörk Valsliðsins skoruðu þær Bergdís Fanney Einarsdóttir og Ragna Guðrún Guðmundsdóttir.

Valsliðið á nú fjóra markahæstu leikmenn Reykjavíkurmótsins og allar hafa þær skorað meira en mark í leik. Margrét Lára Viðarsdóttir er markahæst með 9 mörk í 4 leikjum en Hlín Eiríksdóttir hefur skorað 8 mörk. Elín Metta Jensen er með 7 mörk og Guðrún Karítas Sigurðardóttir hefur skorað 4 mörk eftir þrennuna sína í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×