Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir gott að geta lagt störf sín í dóm félagsmanna en framundan er kjör til formanns og stjórnar í VR. Hann býst við mótframboði í formannskjöri en framboðsfrestur er til klukkan tólf á hádegi mánudaginn 11. febrúar næstkomandi.
„Það kemur þá bara í ljós hvort það sé eftirspurn eftir mínum starfskröftum eða ekki, ég fagna því ef við fáum líflegar og flottar kosningar,“ sagði Ragnar Þór í samtali við Heimi Má Pétursson fréttamann í húsnæði ríkissáttasemjari þar sem kjaraviðræður standa yfir.
Aðspurður um hvort kosningarnar ýti á hann að þrýsta á niðurstöðu í kjaraviðræðum segir Ragnar Þór að hann velti því lítið fyrir sér.
„Ef það er eftirspurn eftir mínum starfskröftum áfram er það bara mjög jákvætt og ég er tilbúinn í það. Svo kemur bara í ljós hvað verður.“
