Stéttarfélögin fjögur sem leitt hafa yfirstandandi kjaraviðræður, VR, Efling, VLFA og VLFG, lýsa reiði og sárum vonbrigðum með þær tillögur sem ríkisstjórnin lagði fram á fundi með forseta og varaforsetum ASÍ í dag, 19. febrúar. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá félögunum sem send hefur verið á fjölmiðla.
Þar segir að viðræður hafi staðið tæpt eftir að Samtök atvinnulífsins lögðu fram tilboð í síðustu viku sem leitt hefði til kaupmáttarrýrnunar fyrir stóra hópa launafólk en félögin segja SA hafa hafnað í kjölfarið sanngjörnu gagntilboði samflotsfélaganna.
„Vonir stóðu til að aðkoma stjórnvalda gæti hleypt glæðum í viðræður. Ljóst er að tillögur stjórnvalda gera þær vonir að engu. Fundað verður í baklandi stéttarfélaganna á næstu sólarhringum og á fimmtudag funda formenn félaganna með SA hjá Ríkissáttasemjara,“ segir í tilkynningunni.
Segjast félögin standa sameinuð og staðföst í kröfunni um að launafólk geti lifað af launum sínum og að stjórnvöld geri löngu tímabærar kerfisbreytingar í réttlætisátt.
Lýsa yfir reiði og sárum vonbrigðum með tillögur ríkisstjórnarinnar

Tengdar fréttir

Telur tillögur ríkisstjórnarinnar ábyrgar og raunsæjar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að tillögur ríkisstjórnarinnar um mögulegar aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum séu ábyrgar og raunsæjar.

Sauð upp úr í stjórnarráðinu
Vilhjálmur Birgisson gekk út af fundi með ríkisstjórninni.