Golf

Nískur kylfingur gagnrýndur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matt Kuchar fagnar með kylfusveininum David Giral Ortiz á Mayakoba Golf Classic
Matt Kuchar fagnar með kylfusveininum David Giral Ortiz á Mayakoba Golf Classic Getty/Rob Carr
Bandaríski kylfingurinn Matt Kuchar er ekki að koma neitt sérstaklega vel út úr umfjöllun fjölmiðla um hversu lítinn hluta mexíkóskur kylfusveinn hans fékk af verðlaunafé hans á dögunum.

Matt Kuchar vann Mayakoba Golf Classic gólfmótið í Mexíkó í nóvember en hann gerði það án síns venjulega kylfusveins sem komst ekki á mótið.

Matt Kuchar réð í staðinn heimamanninn David Giral Ortiz sem vinnur sem kylfusveinn á golfvellinum þar sem mótið fór fram.

Matt Kuchar naut greinilega góðs af þekkingu Ortiz á vellinum því Kuchar spilaði á 22 undir pari og vann sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni í fjögur ár.

Fyrir sigurinn þá fékk Matt Kuchar meira en milljón dollara í verðlaunafé. „Hann var lukkutröllið mitt. Hann færði mér heppni og líka auka stuðning frá áhorfendum. Hann stóð sig líka vel og gerði einmitt þar sem ég var að leita eftir frá honum,“ sagði  Matt Kuchar um Ortiz eftir sigurinn.





Verðlaunaféð var samtals 1,26 milljón dollara eða 152 milljónir íslenskra króna. Launin hans Ortiz voru hins vegar „aðeins“ til að byrja með fimm þúsund dollarar eða 606 þúsund íslenskar krónur.  Ortiz ræddi óánægju sína og launin í viðtali við Golf.com.

Ortiz sagðist síðan seinna hafa fengið fimmtán þúsund dollara í aukabónus og launin voru því komin upp í tuttugu þúsund dollara eða 2,4 milljónir íslenskra króna. Það er svo sem ekkert slæmt fyrir mann sem fær vanalega 200 dollara fyrir daginn sem kylfusveinn.

Málið er bara að er John Wood, hinn vanalegi kylfusveinn Matt Kuchar, hefði fengið 126 þúsund dollara af verðlaunafénu eða meira en 106 þúsund dollurum meira en Ortiz fékk. Þó að Ortiz telji sig ekki eiga rétt á slíkri upphæð þá fannst honum 50 þúsund dollarar vera nærri lagi.

50 þúsund dollarar væri fjögur prósent af verðlaunafénu en heildarlaun David Giral Ortiz eru aðeins 1,6 prósent af verðlaunafénu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×