Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, telur lækkun launa bankastjóra Íslandsbanka og Landsbanka vera jákvætt skref. Hann segir þó að hugur fylgi ekki máli þegar of há laun bankastjóra eru lækkuð eingöngu vegna þrýstings þar um.
Á dögunum var greint frá því að laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, verði lækkuð í ríflega þrjár komma sex milljónir króna á mánuði án hlunninda. Að sama skapi verða laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, lækkuð í þrjár komma tvær milljónir króna á mánuði án hlunninda.
Björn gagnrýnir að það þurfi að neyða menn til þess að lækka launin. Vísar hann þar til bréfs fjármála- og efnahagsráðherra til stjórnar Bankasýslu ríksins um tafarlausa endurskoðun launa æðstu starfsmanna bankanna.
Formaður Starfsgreinasambandsins segir að laun bankastjóranna hafi verið hækkuð allt of mikið áður. „Það getur verið ágætt að koma og segjast vera búinn að lækka af því að það var þrýstingur á. Menn áttu bara ekkert að hækka þetta svona mikið í upphafi,“ segir Björn Snæbjörnsson.
Innlent