Menning

Ást á tímum alnæmis

Björk Eiðsdóttir skrifar
Guðmundur Felixson sá Rent fyrst níu ára gamall og heillaðist.
Guðmundur Felixson sá Rent fyrst níu ára gamall og heillaðist. Fréttablaðið/Anton Brink
Herranótt, leikfélag Menntaskólans í Reykjavík, frumsýnir söngleikinn Rent eftir Jonathan Larson í Gamla bíói þann 15. mars. Síðustu vikur hafa farið fram strangar æfingar þar sem ungmennin hafa lagt nótt við dag í að setja upp sem metnaðarfyllsta uppfærslu verksins sem er lauslega byggt á óperunni La Bohéme eftir Puccini.

„Ég hef nú alltaf dýrkað þennan söngleik og hann hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér,“ segir Guðmundur Felixson sem nú stjórnar sinni fjórðu menntaskólauppfærslu en hann útskrifaðist sem sviðslistahöfundur árið 2015. „Ég sá söngleikinn í Loftkastalanum árið 1999, þá aðeins níu ára gamall, og hef haldið upp á hann síðan. Ég held að stjórn Herranætur hafi eitthvað haft veður af þessum áhuga mínum þegar þau fóru þess á leit við mig að taka að mér leikstjórnina.“

Meðlimir Herranætur hafa lagt nótt við dag til að sýningin verði sem glæsilegust.
Sögusvið verksins er tíundi áratugurinn í New York og umfjöllunarefnið fátækir listamenn, frjálsar ástir, samkynhneigð, transfólk og HIV sem þá var á hápunkti umræðunnar. Því hefur kannski ekki legið beinast við að níu ára drengur tengdi svo sterkt við sýninguna, eða hreinlega sæi hana yfir höfuð en ástæða þess að Guðmundur fékk að sjá uppfærsluna var sú að faðir hans Felix Bergsson var einn aðalleikaranna.

„Pabbi var að leika í sýningunni, við bjuggum rétt hjá Loftkastalanum og við einfaldlega röltum yfir á sýningar,“ útskýrir Guðmundur. 

„Verkið fjallar sannarlega um gríðarlega stór og flókin málefni; eyðnismitaða eiturlyfjaháða listamenn í New York og þó ég hafi ekki greint þennan alvarlega tón þá kveikti tónlistin í mér. Ég átti geisladiskinn og hlustaði mikið á hann í gegnum unglingsárin. Svo þegar kvikmynd eftir söngleiknum kom út árið 2005 tvíefldist áhugi minn á verkinu. Þó maður hafi ekki skilið söguna á sínum tíma þá er leikhús, ef vel gert, þannig að maður nær helstu tilfinningum.“

Guðmundur segir Rent stærstu sýningu sem hann hafi tekið að sér. „Það er sungið nánast alla sýninguna svo þátttakendur þurfa að vera brjálæðislega miklir söngvarar. Það er mikill áhugi á Herranótt í MR eins og iðulega svo við völdum fólk í sýninguna í gegnum spunanámskeið sem ég setti upp. Svo voru ítarlegar söngprufur, enda skiptir söngurinn mestu í þessu verkefni. Danshöfundurinn var svo með dansprufur og við tókum inn sérstakan danshóp.“ 

Guðmundur segir 25 manns fara með hlutverk í sýningunni og að annar eins fjöldi komi að henni á bak við tjöldin. „Það er frábært að vinna með þessum krökkum sem gera þetta af áhuganum einum saman og leggja mikið á sig til að útkoman sé sem best.“

25 nemendur koma fram í sýningunni og annar eins fjöldi starfar bak við tjöldin.

Umræðan á enn erindi í dag

En hvaða erindi á verk um HIV-smitaða listamenn í New York við íslenska menntskælinga árið 2019? 

„Ég hef spurt mig að þessu lengi og ég var að vissu leyti smeykur við að setja verkið upp. Það er vissulega barn síns tíma, tíma þegar alnæmisfaraldurinn stendur sem hæst en flest þeirra sem nú koma að sýningunni voru ekki einu sinni fædd þá. En í fyrsta lagi er þetta ástarsaga og í öðru lagi er umfjöllunarefnið valið um að fylgja hugsjónum þínum eða taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu,“ útskýrir Guðmundur en hvort tveggja er auðvitað tímalaust efni. „Umræðan um HIV og alnæmi á svo enn erindi í dag en tugir nýrra smita koma upp hér á landi ár hvert. Svo er mikilvægt að gera ekki lítið úr sögunni og því sem meðlimir í LBGTQ-samfélaginu þurftu að þola á þessum tíma. Sú upprifjun á fullt erindi við menntaskólanemendur dagsins í dag.“

Rent verður frumsýnt 15. mars í Gamla bíói og hefst miðasala í dag á midi.is en fyrirætlaðar eru átta sýningar alls. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×