Erlent

Milljarður gæti veikst alvarlega vegna hærri meðalhita jarðar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Aedes aegypti gæti breiðst út til Evrópu.
Aedes aegypti gæti breiðst út til Evrópu. Nordicphotos/Getty
Allt að milljarður gæti veikst af sjúkdómum sem moskítóflugur bera fyrir lok aldarinnar vegna hlýnunar jarðar. Þetta kom fram í tilkynningu sem Georgetown-háskóli birti í gær um nýja rannsókn á afleiðingum loftslagsbreytinga.

Útbreiðsla moskítóflugna af tegundunum Aedes aegypti og Aedes albopictus var sérstaklega skoðuð en flugurnar geta borið með sér sjúkdóma á borð við beinbrunasótt, zika-veiruna og chikungunya auk að minnsta kosti tylftar annarra sjúkdóma.

Að mati rannsakenda eru niðurstöðurnar afar slæmar, jafnvel á þeim svæðum þar sem einungis er lítil hætta á að flugurnar nemi land. Það er vegna þess að sjúkdómarnir sem flugurnar bera breiðast afar hratt út og geta fljótlega orðið að alvarlegum faraldri.

„Loftslagsbreytingar eru stærsta heilsufarsógn heims. Moskítóflugur eru einungis hluti hættunnar en eftir zika-faraldurinn í Brasilíu árið 2015 höfum við miklar áhyggjur af því sem koma skal,“ var haft eftir Colin J. Carlson, öðrum þeirra sem stýrðu rannsókninni.

Carlson sagði jafnframt að hættan væri einnig mikil á næstu áratugum. „Svæði á borð við Evrópu, Norður-Ameríku og hálend svæði í hitabeltinu sem voru áður of köld fyrir veirurnar munu þurfa að takast á við nýja sjúkdóma á borð við beinbrunasótt.“

Sadie J. Ryan, hinn rannsóknarstjórinn, sagði að sjúkdómar sem þessir væru nú þegar farnir að gera vart við sig utan hitabeltisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×