Íslenski boltinn

Fjórðu deildar lið sló Víking Ólafsvík úr leik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ejub og hans menn elta toppliðin.
Ejub og hans menn elta toppliðin. vísir/ernir
Fjórðu deildar lið Úlfanna sló Inkassodeildarlið Víkings frá Ólafsvík úr Mjólkurbikarnum þegar liðin mættust í annari umferð í dag. Grótta skoraði tíu mörk gegn KFR.

Víkingur byrjaði af krafti í Ólafsvík og skoraði Pétur Steinar Jóhannsson mark eftir innan við tveggja mínútna leik. Það versnaði hins vegar fljótt útlitið fyrir heimamenn því Emmanuel Eli Keke var sendur af leikvelli með rautt spjald á 20. mínútu og Andri Þór Sólbergsson jafnaði metin á þeirri 21.

Harley Willard tryggði þó á Víkingur færi með forystu inn í hálfleikinn því hann kom heimamönnum aftur yfir á 35. mínútu.

Í seinni hálfleik náðu Úlfarnir að nýta sér liðsmuninn og þeir settu fimm mörk í hálfleiknum. Aron Snær Ingason kom þeim á bragðið á 48. mínútu þegar hann jafnaði leikinn og Richard Már Guðbrandsson kom Úlfunum yfir á 54. mínútu.

Arnór Siggeirsson og Sæmundur Óli Björnsson bættu sitt hvoru markinu við áður en Aron Snær skoraði sitt annað mark og sjötta mark Úlfana. Lokatölur á Ólafsvík 6-2 fyrir Úlfana. Þess má geta að Víkingur Ólafsvík fór alla leið í undanúrslit bikarkeppninnar síðasta sumar og var lengi vel í toppbaráttu í Inkassodeildinni á síðasta tímabili.

Á Seltjarnarnesi var fjórðu deildar lið KFR engin fyrirstaða fyrir Gróttu.

Heimamenn skoruðu fjögur mörk á fyrsta hálftímanum og þar við sat í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks komu mörkin svo á færibandi og staðan var orðin 9-0 á 67. mínútu. Lokanaglinn var negldur á 83. mínútu, niðurstaðan 10-0 stórsigur.

Keflavík hafði betur gegn Haukum í slag Inkassodeildarliðanna í Reykjaneshöllinni. Ingimundur Aron Guðnason skoraði eina mark leiksins.

ÍR vann þægilegan 3-0 sigur á KV og Kórdrengir höfðu betur gegn Vængjum Júpiters.

Úrslit og upplýsingar um markaskorara eru fengin af Úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×