Íslenski boltinn

Fyrsta umferð Mjólkurbikarsins klárast í kvöld

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stjarnan er ríkjandi Mjólkurbikarmeistari karla
Stjarnan er ríkjandi Mjólkurbikarmeistari karla vísir/daníel
Fyrstu umferð Mjólkurbikars karla lýkur í kvöld með leik KB og Snæfells á Leiknisvellinum í Breiðholti. Önnur umferðin fór af stað um helgina.

Mjólkurbikarinn fór af stað í síðustu viku en það eru mest megnis lið í neðri deildunum sem hefja leik í fyrstu umferð, þó nokkur lið úr Inkassodeildinni séu þar á meðal keppenda.

Í gær fóru fram þrír leikir í fyrstu umferð. Skallagrímur tapaði fyrir KV, Selfoss vann öruggan sigur á Þrótti Vogum og Úlfarnir völtuðu yfir Vatnaliljur.

Skallagrímur og KV spila bæði í þriðju deild í sumar, liðin mættust í Akraneshöllinni í gær.

Gestirnir í KV byrjuðu leikinn af krafti, Einar Már Þórisson skoraði fyrsta markið eftir fjórtán mínútur og Oddur Ingi Bjarnason bætti öðru við á 34. mínútu. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks gerði Viktor Máni Róbertsson þriðja mark KV sem fór með örugga forystu í hálfleikinn.

Elís Dofri Gylfason veitti Borgnesingum líflínu á 51. mínútu en KV svaraði um hæl með marki frá Vilhjálmi Kaldal Sigurðssyni. Þar við sat, lokatölur 4-1 fyrir KV sem mætir ÍR í annari umferð á skírdag.

Á Selfossi tóku heimamenn á móti Þrótti úr Vogum, en bæði lið leika í annari deild í sumar. Hrovje Tokic kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik og leiddu Selfyssingar 1-0 í hálfleik.

Í seinni hálfleik gerðu Adam Örn Sveinbjörnsson og Kenan Turudija sitt hvort markið fyrir Selfoss sem vann 3-0 sigur. Selfyssingar fara í Mosfellsbæ og mæta Aftureldingu í annari umferð.

Í Fífunni unnu Úlfarinir stórsigur á Vatnaliljum 6-1. Steinar Haraldsson skoraði tvö mörk fyrir Úlfana sem leiddu 4-1 í hálfleik. Úlfarnir, sem spila í fjórðu deild, eiga erfitt verkefni fyrir höndum í annari umferð þar sem þeir mæta Inkasso-liði Víkings Ólafsvíkur.

Önnur umferð hófst um helgina þegar Sindri og Leiknir Fáskrúðsfirði mættust á laugardaginn. Sindramenn unnu 5-1 sigur.

Í annari umferð, sem verður að mestu leikin um páskahelgina, verða tveir Inkassodeildar-slagir þar sem Leiknir Reykjavík og Fjölnir mætast annars vegar og Keflavík og Haukar hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×