Tiger kom, sá og sigraði á Masters um helgina og vann sitt fyrsta risamót í ellefu ár, eða síðan hann vann Opna bandaríska 2008. Þetta var fimmti sigur hans á Masters.
Tiger hefur unnið 15 risamót á ferlinum. Jack Nicklaus á metið en hann vann 18 risamót á árunum 1962-86.
Á undanförnum mánuðum hefur Tiger tekið stór stökk á heimslistanum. Í nóvember 2017 var hann í 1199. sæti heimslistans en í árslok 2018 var hann kominn upp í 13. sætið.
Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson, sem endaði í 2.-4. sæti á Masters, er á toppi heimslistans. Hann hefur sætaskipti við Englendinginn Justin Rose sem átti ekki gott Masters-mót.
Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka hefur sætaskipti við Norður-Írann Rory McIlroy í 3. sætinu. Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas er fimmti.
Stöðu efstu tíu manna á heimslistanum má sjá hér fyrir neðan.