Golf

Spilamennska Tiger Woods á Masters í gær lofar góðu fyrir framhaldið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiger Woods þakkar fyrir stuðninginn í gær.
Tiger Woods þakkar fyrir stuðninginn í gær. Getty/Marcio Jose Sanchez
Bandaríkjamennirnir Brooks Koepka og Bryson DeChambeau eru efstir eftir fyrsta daginn á Mastersmótinu í golfi en margir kylfingar voru að byrja fyrsta risamót ársins 2019 vel.

Brooks Koepka og Bryson DeChambeau léku báðir á sex höggum undir pari. Koepka fékk engan skolla á hringnum en DeChambeau komst upp að hlið hans með því að fá fugl á lokaholunni.

Mastersmótið í golfi er sýnt beint á Stöð 2 Golf og hefst útsendingin frá öðrum degi klukkan 19.00 í kvöld.





Phil Mickelson er næstur á eftir þeim á fimm höggum undir pari. Phil Mickelson hefur unnið Mastersmótið en getur nú orðið sá elsti til að vinna það en karlinn verður 49 ára í júní. Ian Poulter og Dustin Johnson eru síðan báðir aðeins einu höggi á eftir Phil.





Tiger Woods var í hópi efstu manna framan af degi en hann lék á 70 höggum eða tveimur höggum undir pair. Skorið hans Tigers í gær boðar gott fyrir framhaldið því hann hefur endað utan topp tíu á risamóti þegar hann spilað fyrsta hringinn undir pari eins og sjá má hér fyrir neðan.









Tiger er samt bara í ellefta sæti, fjörum höggum á eftir fyrsta manni. Rickie Fowler og Jason Day spiluðu líka á tveimur höggum undir pari.

Það gekk aftur á móti ekki vel hjá Rory McIlroy, Justin Rose eða Jordan Spieth. Rory McIlroy lék á einu höggi yfir pari en Rose og Spieth komu inn á 75 höggum eða þremur höggum yfir pari.

Brooks Koepka missti af síðasta Mastersmótið vegna úlnliðsmeiðsla en hann hefur unnið þrjá af síðustu sjö risamótum sem hann hefur tekið þátt í. Hann var aðeins með einn fugl á fyrri níu en fékk svo fimm fugla á sex holu kafla á seinni níu.





Bryson DeChambeau endaði daginn frábærlega og varð fyrsti maðurinn í sex ár sem nær fugli á síðustu fjórum holunum. Hann spilaði seinni níu á 31 höggi, fimm undir pari, alveg eins og Koepka.

Allir kylfingarnir sem léku á 69 höggum eða betur voru í seinni ráshópum dagsins.

Efstu menn eftir fyrsta dag á Mastersmótinu má sjá hér fyrir neðan.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×