Menning

Árni bjartsýnn á að klára heimildarmynd

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Árni Johnsen hefur lengi haft taugar til Grænlands og unnið um árabil að gerð heimildarmyndar um Scoresbysundið.
Árni Johnsen hefur lengi haft taugar til Grænlands og unnið um árabil að gerð heimildarmyndar um Scoresbysundið. Fréttablaðið/Anton Brink
Vonskuveður og veikindi eru meðal ástæðna fyrir því að heimildarmynd sem þingmaðurinn fyrrverandi Árni Johnsen hóf að vinna að um Scoresbysund á Grænlandi árið 2014 hefur ekki enn litið dagsins ljós. Árni var duglegur að sækja styrki til verkefnisins, meðal annars af skúffufé ráðherra, en ekki hefur tekist að ljúka við myndina. Árni segir í samtali við Fréttablaðið að hann sé þó enn vongóður um að það takist.

„Verkefnið stendur þannig að það er svona hálfnað,“ segir Árni aðspurður um stöðu verkefnisins sem fjallað var nokkuð um í fjölmiðlum á sínum tíma. Hann segir ýmsar ástæður fyrir því að myndin hafi tafist.

„Það tafðist svolítið því við lentum í rosalegum veðrum, svo lenti ég á spítala í sex mánuði en það kemur. Þetta er í gangi.“

Fréttablaðið sagði frá því í ársbyrjun 2016 að tveir ráðherrar þáverandi ríkisstjórnar hefðu veitt heimildarmyndarverkefninu styrk af ráðstöfunarfé sínu, sem jafnan er kallað skúffufé ráðherra og þeim er frjálst að ráðstafa í verkefni að eigin vali. Sigurður Ingi Jóhannsson, sem þá var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, styrkti verkefnið með skúffufé sínu sem og Gunnar Bragi Sveinsson sem þá var utanríkisráðherra. Síðar sama ár veitti svo þáverandi innanríkisráðherra Ólöf Nordal verkefninu 600 þúsund krónur í styrk af skúffufé sínu. Verkefnið hefur því fengið hundruð þúsunda í styrki frá allavega þremur ráðherrum fyrri ríkisstjórna.

Árni lýsti, í viðtali við Fréttablaðið árið 2016 vegna styrkveitinganna, verkefninu sem afar kostnaðarsömu. Sagði hann Scoresbysund vera lengsta fjörð í heimi með um þúsund fjöllum og tugum skriðjökla. Verkefnið er því augljóslega viðamikið.

„Þetta er rosalegt verkefni. Það áttar sig enginn á því sem þekkir ekki til þarna. Þetta er svo mikið flæmi og fjölbreytt,“ segir Árni um stærðargráðu verksins nú.

Morgunblaðið fjallaði um fyrstu ferð Árna og Friðþjófs Helgasonar kvikmyndatökumanns í fjörðinn í september 2014. Lýsti Árni þar vilja sínum til að fanga hrikalega náttúru, dýralíf og mannlíf á þessum fáförnu og afskekktu slóðum á Norðaustur-Grænlandi á filmu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.