Golf

Johnson tók forystuna fyrir lokahringinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hinn reyndi Dustin Johnson tók forystuna í dag
Hinn reyndi Dustin Johnson tók forystuna í dag vísir/getty
Dustin Johnson leiðir RBC Heritage mótið, sem er hluti af PGA mótaröðinni, með einu höggi fyrir lokahringinn.

Johnson hrifsaði forystuna af Shane Lowry, sem leiddi eftir annan hring, með góðum þriðja hring. Hann fékk sex fugla á hringnum í dag og þrjá skolla, kláraði á þremur höggum undir pari og er samtals á tíu höggum undir pari í mótinu.





Írinn Lowry, sem var í 203. sæti stigalista mótaraðarinnar fyrir þetta mót og á aðeins einn sigur á PGA mótaröðinni á ferlinum, átti erfiðar seinni níu holur í dag sem fóru með forystuna.

Hann byrjaði fyrri níu nokkuð óaðfinnanlega, fékk ekki einn einasta skolla og spilaði fyrir þremur fuglum. Seinni níu voru hins vegar algjör andstaða. Þar kom enginn fugl og þrír skollar svo hann fór hringinn á parinu.

Lowry er þó á níu höggum undir pari í mótinu og er því aðeins einu höggi á eftir Johnson og getur vel endurheimt forystuna með góðum lokahring.

Með Lowry í 2. - 4. sæti eru Ian Poulter og Rory Sabbatini.

Efsti maður FedEx stigalistans, Matt Kuchar, er jafn í 10. sæti og fer upp um níu sæti frá gærdeginum.

Bandaríkjamaðurinn Scot Piercy byrjaði hringinn í dag á svakalegum krafti en hann fór fyrstu fjórar holurnar í röð allar á fugli. Svo hægðist aðeins á honum og það kom skolli á níundu holu.

Hann kláraði seinni níu holurnar á pari og fór því hringinn á þremur höggum undir pari og situr þægilega í fimmta sæti á átta höggum undir pari samtals í mótinu.





Það er þétt setið á toppi töflunnar, tíunda sætið er þremur höggum frá því fyrsta, og verður baráttan á lokahringnum mjög spennandi.

Bein útsending frá lokadegi mótsins hefst á Stöð 2 Golf klukkan 17:00 á morgun, páskadag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×