Golf

Ólafía komin inn á opna bandaríska

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafía Þórunn kampakát í Kaliforníu.
Ólafía Þórunn kampakát í Kaliforníu. mynd/ólafía þórunn
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir tryggði sér í nótt farseðilinn á opna bandaríska meistaramótið í golfi en hún gerði sér lítið fyrir og vann úrtökumót í Kaliforníu.

Spilaðir voru tveir hringir en Ólafía lék hringina tvo á samtals 139 höggum eða fimm höggum undir pari. Hún fór fyrri hringinn á 69 höggum eða þremur höggum undir pari og þann síðari á tveimur höggum undir.

Í heildina fékk Ólafía Þórunn tíu fugla á holunum 36 sem spilaðar voru og fimm skolla en aðeins sigurvegarinn á úrtökumótinu í nótt átti möguleika á keppnisrétt á opna bandaríska sem er eitt af fimm risamótum ársins í kvennagolfinu.

Spennan var mikil því Dottie Ardina varð í öðru sæti á fjórum höggum undir pari eða höggi á eftir Ólafíu. Hún er fyrsti varamaður inn af þessu móti og Naomi Soifua er annar varamaður.

Þetta verður annað árið í röð sem að Ólafía spilar á opna bandaríska meistaramótinu en hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn þar á síðasta ári. Þá verður þetta í sjöunda sinn sem að Ólafía spilar á risamóti á síðustu þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×