Körfubolti

Ghetto Hooligans fá fræðslu frá Samtökunum ´78

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Úr leik ÍR og KR í Seljaskóla í gærkvöldi. Myndbandið af stuðningsmönnunum var tekið skömmu fyrir leikinn.
Úr leik ÍR og KR í Seljaskóla í gærkvöldi. Myndbandið af stuðningsmönnunum var tekið skömmu fyrir leikinn. Vísir/Daníel
Samtökin ´78 munu hitta stuðningsmenn ÍR, Ghetto Hooligans, fyrir oddaleikinn í úrslitaeinvígi ÍR og KR í körfuknattleik karla annað kvöld og fræða þá um hinseginleikinn og mikilvægi þess að allir upplifi sig velkomna innan íþróttafélaga.

Fræðslan kemur í kjölfarið á níði sem hópur stuðningsmanna hafði uppi í myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum í gær. Í myndbandinu sést og heyrist í stuðningsmönnum ÍR þar sem þeir kyrja „Það eru hommar í KR.“

Var myndbandið tekið skömmu fyrir fjórða úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Dominosdeild karla í körfubolta sem fór fram í Seljaskóla í gærkvöldi.

Í færslu Ghetto Hooligans á Twitter í dag biðjast þeir innilega afsökunar á þessum söngvum. Vísað er í yfirlýsingu sem birt var á Twitter í gærkvöldi þar sem kom fram að söngvarnir endurspegli á engan hátt gildi Ghetto Hooligans og að þeir séu til þess fallnir að ala á fordómum og jaðarsetningu hópa í samfélaginu.

Þá segir í færslunni í dag að fulltrúar Ghetto Hooligans hafi í dag verið í sambandi við Samtökin ´78 með það að markmiði að læra sem mest af þessum mistökum.

„Við fögnum því viðmóti sem birtist okkur þar og erum mjög ánægðir með það að fræðslufulltrúi samtakanna hefur þegið boð okkar um að heimsækja hópinn í upphitun okkar fyrir oddaleikinn í úrslitunum á laugardag og vera með fræðsluerindi.

Við ítrekum afsökunarbeiðni okkar og heitum því að vinna gegn niðurrifi og fordómum innan okkar raða,“ segir á Twitter.

Samtökin ´78 segja í færslu á Facebook-síðu sinni að þau fagni því að stuðningsfélagið axli ábyrgð á gjörðum sínum og að þau hlakki til að vinna með félaginu.

„Við munum hitta þau fyrir leik á morgun til að ræða málin og fræða þau um hinseginleikann og mikilvægi þess að öll upplifum við okkur velkomin innan íþróttafélaga,“ segir í færslu samtakanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×