Körfubolti

Harmar níðið í myndbandinu en gerir ekki ráð fyrir viðurlögum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Úr leik ÍR og KR í Seljaskóla í gærkvöldi. Myndbandið af stuðningsmönnunum var tekið skömmu fyrir leikinn.
Úr leik ÍR og KR í Seljaskóla í gærkvöldi. Myndbandið af stuðningsmönnunum var tekið skömmu fyrir leikinn. Vísir/Daníel
Framkvæmdastjóri ÍR harmar orðbragð sem stuðningsmenn karlaliðs félagsins í körfuknattleik viðhöfðu í myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum í gær. Söngvar stuðningsmannanna sem teknir voru upp á myndbandinu þóttu litaðir fordómum í garð samkynhneigðra en ÍR gerir ekki ráð fyrir því að gripið verði til sérstakra aðgerða eða viðurlaga gagnvart þeim sem áttu í hlut.

„Það eru hommar í KR“

Umræddu myndbandi var deilt á Twitter í gær en í því sjást og heyrast stuðningsmenn ÍR kyrja „Það eru hommar í KR“. Myndbandið er tekið skömmu fyrir fjórða úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Dominosdeild karla í körfuknattleik sem fram fór í Seljaskóla í gærkvöldi. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Gamaldags hómófóbísk stemning

Orðbragð stuðningsmannanna vakti strax hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum. Einn notandi, Andrés Jakob, beindi því til að mynda til körfuknattleiksdeildar ÍR að skammast sín. Með athæfinu stuðli stuðningsmennirnir að hatri og fordómum í garð samkynhneigðra.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakanna 78 fordæmdi orðbragðið og sagði „gamaldags hómófóbíska stemningu“, líkt og sæist í myndbandinu, vera eina ástæðu þess að ungt hinsegin fólk hrökklist úr íþróttum.

Fleiri lýstu einnig yfir vanþóknun sinni á hegðun stuðningsmannanna.

Harma að söngvarnir hafi litið dagsins ljós

Bæði Körfuknattleiksdeild ÍR og Ghetto Hooligans, stuðningsmannafélag ÍR, birtu stuttar yfirlýsingar vegna myndbandsins á Twitter-reikningum sínum í gær. Í yfirlýsingu hinna fyrrnefndu, sem birtist í morgun, segir að „hvers kyns fordómar og jaðarsetning minnihlutahópa“ sé ekki í nafni félagsins. Þá eigi körfuboltaleikir ekki að vera vettvangur til að „básúna hatri“.

Tekið er í sama streng í yfirlýsingu Ghetto Hooligans sem birtist seint í gærkvöldi en þar segir að myndbandið endurspegli hvorki gildi körfuknattleiksdeildarinnar né stuðningsmannanna. Þá sjái þeir eftir umræddum söngvum og harmi að „þeir hafi litið dagsins ljós“.

Svona níð viðgangist ekki innan ÍR

Ekki náðist í Guðmund Óla Björgvinsson formann stjórnar körfuknattleiksdeildar ÍR en Árni Birgisson framkvæmdastjóri ÍR segir í samtali við Vísi að sú hegðun og orðbragð sem kemur fram í myndbandinu eigi ekki að viðgangast innan félagsins. Þá sé von á opinberri afsökunarbeiðni frá stuðningsmönnunum.

„Og ég harma að þetta hafi gerst,“ segir Árni. Hann gerir þó ekki ráð fyrir því að ÍR muni bregðast við málinu með einhverjum aðgerðum eða viðurlögum gagnvart þeim sem eiga hlut að máli.

„Ég geri ekki ráð fyrir því að klúbburinn gangi eitthvað lengra í því nema að óska eftir því að þetta gerist ekki aftur. Þetta er ekki það sem viðgengst hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur og Íþróttafélag Reykjavíkur vill ekki hafa þetta innan sinna vébanda, svona níð. Þetta er bara í farvegi og tekið á því og skoðað inni hjá félaginu en það eru engar sérstakar aðgerðir enn þá komnar upp á borðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×