Leikjavísir

Days Gone: Flest gert ágætlega en lítið frábærlega

Samúel Karl Ólason skrifar
Oregon lítur mjög vel út í Days Gone.
Oregon lítur mjög vel út í Days Gone.
Í Days Gone setja spilarar sig í fótspor mótorhjólagarpsins Deacon St. John, eða Deek, þar sem hann þarf að fóta sig í heiminum tveimur árum eftir að dularfullur faraldur þurrkaði út flesta íbúa jarðarinnar en breytti þó hluta þeirra í skrímsli, sem eru í rauninni ekkert annað en hraðir uppvakningar, en skrímslin eru kölluð Freakers.

Inn á milli eru sterkir uppvakningar, úlfa-uppvakningar, öskrandi uppvakningar og ýmislegt fleira. Komi margir uppvakningar saman mynda þeir hjörð, sem er bæði hræðilegt og æðislegt að upplifa.

Deacon er í Oregon ásamt vini sínum Boozer og er Deacon að reyna að komast að því hvað kom fyrir Söru eiginkonu hans þegar faraldurinn var sem verstur.

Days Gone er gerður af SIE Bend Studio og er eingöngu fyrir PS4.

Það fyrsta sem ég tók eftir við spilun Days Gone var að leikurinn fær lánað frá fjöldanum öllum af öðrum leikjum og jafnvel sjónvarpsþáttum. Það er smá Walking Dead þarna, Last of Us, Far Cry, World War Z, Mad Max og jafnvel smá Sons of Anarachy, aðallega út af því að Deacon og margir aðrir íbúar heimsins ferðast um á mótorhjólum og Deacon þarf að verja miklum tíma og auðlindum í að betrumbæta hjól sitt til að lifa af.

Ég get ekki sagt annað að ég hafi skemmt mér vel í leiknum en hann inniheldur þó töluvert af göllum. Persónur og freakers birtast upp úr þurru hér og þar og frameratið getur farið niður í ekki neitt, svo eitthvað sé nefnt. Í eitt sinn þegar ég var að keyra á milli verkefna var ég nánast alveg hættur að sjá hvað ég var að gera og hafði enga stjórn á hjólinu vegna laggs.

Deacon greyið var alveg jafn ringlaður og ég og endaði á því að dúndra á tré. Það var ekki mér að kenna, það var honum að kenna.

Þá eru mennskir óvinir í Days Gone nautheimskir og oft á tíðum ófyrirsjáanlegir. Stundum taka þeir ekki eftir því að maður stekkur út úr runna tveimur metrum frá og myrðir manneskju sem þeir voru að tala við á grimmilegan hátt. Þeir halda bara áfram að tala og labba í burtu þegar þeim er ekki svarað.

Á hinn bóginn virðast sumir geta séð mann á 300 metra færi, þó það séu runnar, tré og jafnvel Freakers á milli okkar.

Það undarlegasta við Days Gone er þó án efa talsetningin. Stundum er hún framúrskarandi og stundum er hún algerlega hrottaleg. Það er án gríns 50/50. Ég hef reyndar verið mikill aðdáandi Sam Witwer frá því hann talsetti Starkiller í Force Unleashed og svo sýndi hann auðvitað verðlaunaframistöðu sem Doomsday í Smallville en það er eitthvað undarlegt í gangi þarna í Days Gone.



Það er algjörlega happa glappa hvort Deacon öskri á manneskjuna sem hann er að tala við eða gerir það eðlilega. Hann á það til að öskra á útvarpið líka, jafnvel þó skrímsli eða vondir karlar standa yfir honum þar sem hann er í felum.



Ég hef orðið vitni af samtölum þar sem Deacon öskrar á aðra manneskju eins og hún sé í tuttugu metra fjarlægð og fellibylur sé að fara yfir svæðið. Hún stóð þó bara við hliðina á honum og talaði eðlilega. Það var eins og leikararnir hafi fengið mismunandi lýsingar á atriðinu.

Inn á milli eru svo frábær samtöl, sem eru bæði forvitnileg og vel leiklesin. Þetta er allt saman undarlegt. Í hvert sinn sem einhver opnar munninn kemst ég ekki hjá því að hugsa: „Hvað er eiginlega í gangi?“

Verstir eru þó histerísku drullusokkarnir sem Deacon rambar á í óbyggðunum.

Leikir sem koma út á okkar tímum fá þó reglulega plástra eftir útgáfu og starfsmenn SIE Bend hafa hingað til verið mjög duglegir við að takast á við tæknilegu gallana. Ég er ekki viss um að það verði auðvelt eða yfir höfuð hægt að laga talsetninguna.



Sony hefur verið að gera góða leiki að undanförnu sem ganga ekki út á að reyna að selja manni DLC eða fá mann til að leysa verkefni dagsins og verkefni vikunnar fyrir stig sem nýtast í ekki neitt. Ég er að tala um einspilunarleiki sem snúast um einhverja ákveðna sögu, eins og Spider-Man, God of War og jafnvel Horizon Zero Dawn, þó hann sé nú orðinn aðeins eldri.

Saga Days Gone er áhugaverð en eins og gengur og gerist í leikjum með opinn heim eru nokkrar í gangi. Deacon er að reyna að komast að því hvað kom fyrir eiginkonu sína, sem hann skildi við í upphafi leiksins, reyna að halda vini sínum Boozer á lífi en hann særist alvarlega mjög snemma í leiknum, bjarga ungri konu frá þessum harða heimi og eiga í samskiptum við mismunandi fylkingar heimsins, svo eitthvað sé nefnt.

Frábært veðurkerfi

Fylkingar þessar eru nokkuð einsleitar. Einn hópur býr í þrælabúðum og Deacon getur í rauninni selt fólk í þessar búðir. Annar hópurinn virðist leiddur af Alex Jones. Sá sem leiðir hann á útvarpssendi og er alltaf að rausa eitthvað um hvað ríkið er slæmt og einkaframtakið er frábært og inn í þá umræðu blandar hann ýmsum samsæriskenningum og öðru rugli. Svo erum við með frjálsu fylkinguna. Þeir reyna að hjálpa öllum.

Síðasta fylkingin er samsett úr einhverjum grimmum fávitum sem vilja tilbiðja Freakers og pynta alla sem þeir hitta. Mismunandi fylkingar selja mismunandi hluti og Deacon getur keypt vopn, birgðir og betrumbætt hjólið sitt með því að leysa verkefni fyrir fylkingar, selja þeim mat og drepa Freakers. Þetta er allt saman voða beisik.

Þá komum við að því sem er gert einkar vel í Days Gone. Kort leiksins, veðurkerfi og bardagar (sérstaklega gegn Freakers) standa þar upp úr.

Oregon er einkar fallegt og það getur verið alveg frábært að ferðast þar um á mótorhjólinu. Landslagið er mjög fjölbreytt og veðurkerfið gerir mikið fyrir það. Þá þarf maður alltaf að vera á varðbergi gagnvart Freakers og mönnum sem leggja gildrur fyrir vegfarendur.

Snjókoma í Days Gone er einkar eftirtektarverð. Fyrir utan það að líta vel út hefur hún einnig áhrif á leikinn. Freakers eru öflugri í kulda og það er erfiðara að stýra mótorhjólinu í snjónum.

Þegar kemur að verkefnum leiksins og bardögum líka verður að segjast að þau geta verið frekar einsleit. Að mestu snúast þau um að fara þangað og drepa þetta fólk eða fara þangað, finna vísbendingar og svo drepa þetta fólk. Það eru líka verkefni þar sem Deacon þarf að fara þangað, fela sig, hlusta á þetta fólk og ekki drepa það en þau virðast færri.

Þá eru rannsóknarstöðvar víða um Oregon sem Deacon þarf að finna hið snarasta og gangsetja á nýjan leik. Þegar búið er að koma eldsneyti á rafal búðanna getur Deacon sofið þar en það sem skiptir mestu máli er að þar finnur Deacon sprautur sem bæta líkamsburði hans og þær eru mjög mikilvægar. Með þessum sprautum getur Deacon hlaupið lengur, orðið fyrir meiri skaða og varið meiri tíma í að skjóta Freakers í slowmo, sem hjálpar mjög mikið.

Panikaði og skammast mín ekkert fyrir það

Fyrsta rannsóknarstöðin sem ég fann var við hlið lestar og fjöldagrafar. Freakers sækja mjög mikið í þessar fjöldagrafir og í lestinni hélt hjörð af Freakers til á daginn. Ég ætlaði því að nota sólskinið til að laumast fram hjá öllum og opna stöðina í rólegheitunum.

Það sem ég vissi þó ekki var að þegar Deacon setur rafmagnið aftur á rannsóknarstöðvar fara hátalar þeirra líka í gang og óma skipanir frá einhverjum dauðum hermönnum um svæðið. Um leið og ég kveikti á rafalnum kom hjörðin á sprettinum út úr lestinni með miklum látum.

Ég skammast mín ekkert fyrir að segja það en ég panikkaði alfarið. Ég hef sjaldan orðið jafn hræddur í tölvuleik og endaði á því að reyna að flýja, sem heppnaðist ekki. Deacon greyið var étinn.

Hjarðir eru það allra besta við Days Gone. Þær elta Deacon eins og flóðbylgja og þarf hann að notast við umhverfið og gildrur til að ganga frá þeim. Það er krefjandi og einkar spennandi að takast á við góða hjörð.

Mótorhjól Deacon er einnig mjög góður hluti Days Gone. Spilarar munu sífellt vera að uppfæra það og breyta og það verður sífellt mikilvægara. Ímyndið ykkur hestinn í Red Dead, án þess þó að hægt sé að flauta á hann. Þú þarft alltaf að sækja hjólið sjálfur þegar þú skilur það eftir. Þú þarft að halda því við og ganga úr skugga um að það sé nægilegt eldsneyti á því.

Ég skil pælinguna við eldsneytið en heilt yfir litið er það lítið annað en pirrandi að þurfa sífellt að fylla á hjólið, því það eyðir hálfum tanki á því að fara hálfan kílómetra. Þrátt fyrir það hef ég aldrei orðið bensínlaus því það eru bensínbrúsar út um allt. Þeir birtast alltaf upp á nýtt á sama staðnum og tæmast aldrei.

Maður er því sjaldan sem aldrei í hættu á að vera bensínlaus en er samt sífellt að fylla á þennan helvítis tank og þetta verður bara einsleitt verkefni sem maður er sífellt að gera aftur og aftur.

Samantekt

Þetta kemur fram í fyrirsögninni. Í Days Gone er flest gert ágætlega en lítið frábærlega. Bardagar geta verið mjög skemmtilegir og kaótískir þó verkefni leiksins séu of einsleit og mennskir óvinir séu einstaklega heimskir.

Heilt yfir litið finnst mér Days Gone fínn leikur og ég á eftir að spila hann mun meira. Ég skil þó vel að fólk kunni ekki að meta hann þar sem það er fátt sem stendur upp úr eftir spilunina. Tæknilegir gallar og undarleg talsetning kemur þó verulega niður á upplifuninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.