Erlent

Stórfyrirtæki til rannsóknar vegna mútugreiðslna í Brasilíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríska fyrirtækið Johnson & Johnson er á meðal þeirra sem er til rannsóknar í Bandaríkjunum og Brasilíu.
Bandaríska fyrirtækið Johnson & Johnson er á meðal þeirra sem er til rannsóknar í Bandaríkjunum og Brasilíu. Vísir/Getty
Bandaríska alríkislögreglan FBI rannsakar nú stórfyrirtækin Johnson & Johnson, Siemens, General Electric og Philips vegna mútugreiðslna sem tengjast lækningavörur í Brasilíu. Brasilískir saksóknarar telja að fyrirtæki hafi mútað embættismönnum til að tryggja sér samninga við heibrigðisyfirvöld í landinu.

Reuters-fréttastofan hefur eftir brasilískum yfirvöldum að þau telji að fleiri en tuttugu fyrirtæki hafi mögulega verið hluti af samráðshring sem greiddi mútur og ofrukkaði ríkissjóð fyrir lækningavörur eins og segulómtæki og gervilimi.

Alþjóðlegu fyrirtækin fjögur eru þau stærstu sem hafa verið rannsökuð vegna stórfelldra spillingarmála í Brasilíu undanfarin ár. Þau gætu átt yfir höfði sér háar sektir í Bandaríkjunum.

Brasilískur alríkissaksóknari staðfesti við Reuters að bandarísk yfirvöld aðstoðuðu nú við rannsóknina á svikamyllunni í kringum lækningavörurnar.

Spillingarmál hafa sett mikinn svip á brasilísk stjórnmál undanfarin ár. Bæði stjórnmálamenn og stjórnendur fyrirtækja hafa hrökklast frá eftir að upplýst var um stórfelldar mútugreiðslur til embættismanna. Brasilíska verktakafyrirtækið Odebrecht var dæmt til að greiða 3,5 milljarða dollara sekt vegna aðildar þess að umfangsmesta spillingarmáli í sögu Rómönsku Ameríku sem hefur verið nefnt bílaþvottahneykslið. Það snýst meðal annars um spillingu innan Petrobras, ríkisolíufyrirtækis Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×