Erlent

Þrjátíu og fimm lík fundust í Mexíkó

Birgir Olgeirsson skrifar
Forsetinn segist hafa stjórn á vandamálinu, en á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs voru fleiri myrtir en á sama tímabili í fyrra.
Forsetinn segist hafa stjórn á vandamálinu, en á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs voru fleiri myrtir en á sama tímabili í fyrra. Vísir/Getty
Mexíkósk yfirvöld hafa fundið þrjátíu og fimm lík grafin víðs vegar í borginni Guadalajara en þessi fundur er enn ein áminning um það mikla ofbeldi sem á sér stað í landinu vegna átaka glæpagengja.

Forseti landsins, Andres Manuel Lopez Obrador, sem tók við embætti í desember síðastliðnum, hafði heitið því að vinna gegn framgangi þessara glæpagengja en 29 þúsund voru myrtir í Mexíkó í fyrra, sem er met.

Ríkissaksóknari Jalisco ríkis, Gerardo Octavio Solis, sagði 27 lík hafa fundist grafin á landareign á Zapopan-svæðinu í Guadalajara í síðustu viku. Rannsókn á svæðinu stendur enn yfir en fulltrúar á vegum yfirvalda hafa grafið niður á þriggja metra dýpi í leit að líkamsleifum.

Sjö höfuðkúpur til viðbótar fundust á svæði í borginni þar sem rannsókn stendur enn yfir. Þá fannst annað lík til viðbótar í Tlajomulco í suðvestur Guadalajara.

Saksóknarinn sagði þennan fund vera högg fyrir skipulagða glæpastarfsemi en fjórir hafa verið handteknir grunaðir um aðild. Ekki er vitað hvenær líkin voru grafin.

Jalisco-ríki er alræmt vegna ítaka eiturlyfjahringsins Jalisco Generation Cartel, en ríkið hefur orðið illa úti vegna átaka eiturlyfjarhringja um umráð.

Forsetinn segist hafa stjórn á vandamálinu, en á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs voru fleiri myrtir en á sama tímabili í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×