Menning

Skrifa um eigin upplifun

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Mæðgurnar Ragnheiður Inga og Snæfríður í bænum El Médano á Tenerife. Ragnheiður Inga er í blautbúningi á leið í sörfskólann.
Mæðgurnar Ragnheiður Inga og Snæfríður í bænum El Médano á Tenerife. Ragnheiður Inga er í blautbúningi á leið í sörfskólann.
„Á Tenerife er ég kölluð Ragga því Spánverjar eiga erfitt með að segja nafnið mitt,“ segir hin ellefu ára Ragnheiður Inga Matthíasdóttir, stödd á Tenerife er ég hef samband við hana. Hún hefur dvalið þar í allan vetur með fjölskyldu sinni og ekki setið auðum höndum á eyjunni fögru. Nú er komin út bók eftir hana sem fjallar um hvað krakkar geta upplifað á Tenerife, eða fjölskyldur í sameiningu. Sú heitir Tenerife krakkabókin – Geggjað stuð fyrir hressa krakka.  En hvað kom til að hún fór að skrifa þessa bók?

„Ég hef oft skrifað alls konar smásögur og svo var ég að skrifa í dagbókina mína um hitt og þetta sem ég prófaði hérna úti. Þegar ég var að lesa það fyrir mömmu þá föttuðum við að það vantaði bók fyrir krakka um Tenerife. Mamma gaf út bók í fyrra um eyjuna en hún var meira fyrir fullorðna, þessi bók er bara fyrir hressa krakka sem langar að gera eitthvað skemmtilegt hérna. Ég skrifa um eigin upplifun og reynslu og hef frá nógu að segja. Sumt af því sem ég lýsi var ég búin að prófa áður en sumt prófaði ég sérstaklega fyrir bókina. Mamma, Snæfríður Ingadóttir, skrifar líka smá í hana, það eru aðallega upplýsingar fyrir foreldra.“

Fjölskyldan er fimm manna. Hún kom til Tenerife í byrjun september, að sögn Ragnheiðar. „Við höfum oft komið til Kanaríeyja og höfðum nokkrum sinnum gert íbúðaskipti í þessum strandbæ, El Medano. Þess vegna ákváðum við að búa hér og fengum okkur litla íbúð. En það er enginn í fríi, mamma skrifar greinar og bækur og pabbi þýðir kvikmyndir, svo erum við systurnar þrjár í spænskum skóla sem er í göngufæri. Ég get líka labbað í dansskólann, körfuboltann og sörfskólann.“ 

Ragnheiður hefur fengið að kynnast því hvernig er að vera útlendingur.

„Fyrst kunni ég ekki tungumálið og var skilin útundan. Svo lærði ég málið en er samt skilin útundan. Ég er öðruvísi en kanarísku krakkarnir og skólakerfið er allt öðru vísi en heima. Þetta hefur ekki verið auðvelt en ég er búin að læra fullt á þessu. Ég kunni ekkert í spænsku þegar ég kom í haust en nú er ég altalandi. Svo var líka gaman að vera í dansskóla hér og taka þátt í karnivalinu. Þá þurfti ég að dansa í tvo klukkutíma samfleytt úti á götu í rosa búningi og brosa allan tímann. Veðrið hér er æðislegt og svo er margt hægt að gera hérna. Spurð hverju hún mæli helst með í bókinni svarar hún: Til dæmis að smakka churros og pöddugos, fara í Canary Jump sem er risastórt hús fullt af trampólínum og heimsækja vísindasafn sem er með fullt af tækjum og skrípatólum sem allir mega prófa.“

Ragnheiður segir bókina örugglega koma í bókabúðir á Íslandi í byrjun júní. „En það er hægt að kaupa hana strax á síðunni hennar mömmu lifiderferdalag.is Kannski kveðst hún svo skrifa fleiri bækur í framtíðinni.

„Ég hef mjög gaman af bókum, átrúnaðargoðið mitt er Gunnar Helgason, bækurnar hans eru æði.“  Hún hlakkar til að koma heim til Akureyrar aftur eftir mánuð. Íbúðin hér er frábær með stórum þaksvölum en ég get ekki beðið eftir að fá mitt eigið herbergi aftur og hætta að hlusta á systur mínar hrjóta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×