Skoðun

Welcome to Althingi Bar

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifar
Í þeirri óskiljanlegu ríkisstjórn sem hér situr geysist forsætisráðherra um álfuna og flytur fagnaðarerindi Sósíaldemókrata meðan fjármálaráðherra boðar hagræðingaraðgerðir og biður okkur að fara betur með krónurnar okkar.

Ég hef áhyggjur af Katrínu. Mér finnst eins og hún sé ekki með sjálfri sér. Er hún í álögum?

Getur verið að fjármálaráðherra sé vampíra?

Það er engu líkara en að fjármálaráðherra hafi bitið forsætisráðherra til blóðs og nú sé hún gersamlega á valdi hans. Meðan sultarólin er hert heimsækir hún Múlalund, gengur á Úlfarsfell og undirritar samkomulag um loftlagsmál og grænar lausnir.

Ég kem þessu ekki heim og saman.

Ekki veit ég hvernig þeir, sem missa nú vegna hagræðingar vinnuna, eiga að fara betur með sínar krónur. Straua þær og kyssa bless áður en atvinnuleysið tekur heimilin af fólkinu?

En það er ljós í myrkrinu. Veikir og gamlir verða nú ekki í vandræðum með að fara vel með það sem þeir eiga ekki til!

Í ferðaþjónustu er spáð samdrætti og ríkisstofnanir skulu skila arði segir fjármálaráðherra. Hvernig Landspítalanum á að takast það verður væntanlega svarað í næsta páskaeggi.

Sér fjármálaráðherra fyrir sér einhverskonar hungurleika á Landspítalanum þar sem erlendir ferðamenn geta keypt sig inn til að fylgjast með sjúklingum og starfsfólki berjast fyrir lífi sínu og annara.

Verður Alabama nýr áfangastaðir Icelandair í Bandaríkjunum í vetur?

Annars er nú opið allan sólarhringinn á Alþingi voru þessa dagana svo réttast væri að opna þar án tafar strippbúllu og bar sem gæti sannarlega skilað ríkulegum arði í heimilisbókhaldi ráðherrahjónanna.




Skoðun

Sjá meira


×