Innlent

Varð­eldur í fjöru í Skorra­dal veldur í­búum á­hyggjum: "Þetta er frekar ó­hugnan­leg hegðun“

Sighvatur Jónsson og Sylvía Hall skrifa
Birgir Hauksson vakti athygli á reyknum á Facebook-síðu sinni og sagði háttsemina skjóta skökku við fréttaflutning af hættu á gróðureldum.
Birgir Hauksson vakti athygli á reyknum á Facebook-síðu sinni og sagði háttsemina skjóta skökku við fréttaflutning af hættu á gróðureldum. Jói K/Skjáskot
Varaslökkviliðsstjóri Borgarbyggðar, Þórður Sigurðsson, biðlar til fólks að kveikja ekki elda í Skorradal en myndir hafa birst á samfélagsmiðlum af hið minnsta tveimur atvikum. Annars vegar var varðeldur kveiktur á tjaldsvæði og hins vegar í fjöruborði við Skorradalsvatn. Í samtali við fréttastofu rétt í þessu sagðist Þórir vera á leið upp í Skorradal ásamt lögreglu til að kanna aðstæður. Málið yrði tekið föstum tökum.

Miklir þurrkar og blíðviðri síðustu daga hefur gert það að verkum að mikil hætta er á gróðureldum í Skorradal. Óvissustigi hefur verið lýst yfir á Vesturlandi vegna hættu á gróðureldum eftir langvinna þurrka á svæðinu. 

„Það er enn allt mjög þurrt. Mjög ógnvænlegar myndir sem ég hef verið að fá sendar í morgun þar sem fólk hefur verið að kveikja elda þarna sem er mjög svekkjandi í ljósi allrar umræðunnar,“ segir Þórður en sérstök bakvakt er hjá slökkviliði Borgarbyggðar í ljósi aðstæðna.

Varaformaður sumarhúsafélagsins í Fitjahlíð í Skorradal sagði í samtali við fréttastofu á dögunum að íbúar á svæðinu hefðu miklar áhyggjur af ástandinu og benti á þá staðreynd að eldhættan væri gríðarleg. Lítið þyrfti til þess að eldur myndi kveikna og breiðast hratt út. 

Sjá einnig: Hafa miklar áhyggjur af eldhættunni í Skorradal

Birgir Hauksson birti í morgun mynd á Facebook-síðu sinni þar sem sjá má reyk í fjöru í Skorradal og gagnrýnir hann háttsemina. Hann segir hegðunina óhugnanlega, sérstaklega í ljósi fréttaflutnings þar sem hættan á gróðureldum er áréttuð. 

„Þetta er frekar óhugnanleg hegðun finnst mér, sérstaklega í ljósi undangenginna frétta af gríðarlegri eldhættu í Skorradal hvar hefur verið talað um mögulegt milljarða tjón á eignum og gróðri ef eldur yrði laus, jafnvel manntjón,“ skrifar Birgir í færslunni.






Tengdar fréttir

Æfðu viðbrögð vegna gróðurelda af mannavöldum

Um helmingur slökkviliðs Borgarbyggðar æfði í Skorradal í gærkvöldi viðbrögð vegna gróðurelda. Varaslökkviliðsstjóri fagnar áhuga sumarbústaðaeigenda á þátttöku í æfingum en segir að eftir að slökkvilið sé komið á vettvangi trufli almenningur slökkvistarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×