Erlent

Maðurinn sem stakk forseta Brasilíu metinn ósakhæfur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jair Bolsonaro var stunginn þegar hann var í framboði til forseta Brasilíu.
Jair Bolsonaro var stunginn þegar hann var í framboði til forseta Brasilíu. NurPhoto/Getty
Karlmaður sem stakk Jair Bolsonaro á stuðningsmannafundi þess síðarnefnda í september í fyrra hefur verið metinn ósakhæfur sökum geðrænna vandamála.

Ekki er hægt að sækja manninn, Adélio Bispo de Oliveira, til saka samkvæmt dómara í Brasilíu, þar sem hann var ekki fyllilega meðvitaður um gjörðir sínar þegar hann framdi árásina. Bolsonaro var frambjóðandi til embættis forseta þegar árásin átti sér stað. BBC segir frá.

De Oliveira var hins vegar metinn hættulegur sjálfum sér og öðrum og hefur verið fangelsaður um óákveðinn tíma svo hægt sé að verða honum úti um viðeigandi aðstoð.

Telur árásina hafa verið skipulagða

Bolsonaro var ekki ánægður með niðurstöðu dómsins og hyggst áfrýja honum.

„Ég verð í sambandi við lögmann minn. Ég reyni að gera allt sem hægt er,“ sagði Bolsonaro í viðtali við brasilíska miðla í gær.

Forsetinn telur árásina hafa átt sér pólitískar ástæður. Hann heldur því einnig fram að hún hafi verið skipulögð af öðrum en de Oliveira sjálfum

„Þeir reyndu að drepa mig. Ég veit hverjir voru að verki, en ég get ekki sagt það. Ég vil ekki dæma neinn fyrir fram,“ sagði forsetinn.

„Þetta er glæpur gegn forsetaframbjóðanda sem nú hefur valdið og við verðum að komast að lokaafleiðingum þess máls.“

Fyrir nokkrum vikum síðan fyrirskipaði dómari að de Oliveira skyldi vistaður á stofnun fyrir fólk sem á við geðræn vandamál að stríða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×