Menning

Mikið sumar í þessari há­tíð

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Víkingur Heiðar á vinnustofunni sinni, innan um listaverk eftir tengdaföðurinn, Magnús Tómasson.
Víkingur Heiðar á vinnustofunni sinni, innan um listaverk eftir tengdaföðurinn, Magnús Tómasson. Fréttablaðið/Anton Brink

„Það mætti halda að þú værir frá Der Spiegel. Þetta er þýsk nákvæmni,“ segir Víkingur Heiðar glaðlega þegar ég hringi í hann á mínútunni sem ráðgerð var fyrir símaviðtal. „Þú gætir líka verið frá Japan. Þar er bæði dónaskapur að mæta tvær mínútur í og tvær mínútur yfir! Maður verður líka hálfgerður tímafasisti þegar maður stendur í svona tónleikahaldi, því allt þarf að ganga upp,“ bætir hann við og á að sjálfsögðu við hina glæsilegu tónlistarhátíð sína Reykjavík Midsummer Music 2019, sem haldin verður um aðra helgi, 21.-23. júní.



„Þetta er það stærsta sem ég hef gert hingað til – tvímælalaust, langviðamesta Reykjavíkurhátíðin mín, stórir listamenn og efnisskrárnar mjög þéttar. Ég er að fá hingað ótrúlegt fólk sem ég er að vinna með erlendis og mig langar að Íslendingar heyri í. Það sem ræður því vali mínu er hrifning og dýnamík. Þar þarf þrennt að koma til, fólkið þarf að hafa mikla hæfni á sínu sviði, smá ævintýragirni og vera góðar manneskjur. Það er ekki pláss fyrir nein skrímslaegó á svona hátíðum, þótt allir séu stjörnur, heldur erum við saman sem lið sem gerir klikkaða hluti í tónlistinni.“



Tíu erlendir listamenn koma að utan og einnig leika íslenskir listamenn en óvenju fáir í ár, að sögn Víkings Heiðars. „Þó að margt gott sé að gerast hér á landi á tónlistarsviðinu, til dæmis í kammersenunni, finnst mér vanta að fleiri stórkostlegir erlendir tónlistarmenn komi almennt til að spila bæði einleik og í kammerverkum. Því er forvitnilegt að sjá hvort það gengur að gera svona festival, þannig að þetta er líka tilraun hjá mér. Það er svolítið trikkí að halda það hér um hásumar því Íslendingar vilja eðlilega vera úti þegar veðrið er gott og ég er þakklátur fyrir sólskinið sem hefur verið í borginni í hálfan mánuð. Líklega er ég eini Íslendingurinn sem biður um slæmt veður!“ segir hann og kveðst sannarlega vona að fólk mæti á tónleikana. „Það er óvíst hvenær því gefst tækifæri næst til að upplifa eitthvað álíka. Svo er líka mikið sumar í þessari hátíð og geggjaður fílingur inni í Hörpu og Mengi, hvernig sem veðrið er úti!“

Draumur að fá þetta listafólk

Beðinn að nefna nokkra flytjendur af handahófi byrjar Víkingur Heiðar á Labèque-systrum. „Þær eru tvímælalaust fremsta píanó-dúó í heimi, hafa skrifað tónlistarsöguna á sínu sviði síðustu þrjátíu ár, unnið með helstu tónskáldum og eru aufúsugestir á bestu sviðum heimsins. Svo eru þær æðislegar manneskjur. Við ætlum að spila sexhent á lokatónleikunum. Vorum að spila á sömu píanóhátíð í Brussel í febrúar, þá kom í ljós að við höfðum verið að fylgjast hvert með öðru, þótt við hefðum aldrei hist fyrr. Þá var ég fyrir löngu búinn að loka flytjendalistanum á hátíðinni minni en þegar við vorum búin að fá okkur einn kaldan eftir tónleikana sagði ég: Af hverju komið þið ekki til Reykjavíkur? Þær eru náttúrlega bókaðar til 2023, en áttu þessa helgi lausa og sögðu já á staðnum. Það er bara ótrúlegt að það sé að gerast.“



Næst nefnir hann söngvarann Florian Boesch sem kemur fram á fyrstu tvennum tónleikunum. „Florian er bara einn besti ljóðasöngvari í heimi, leyfi ég mér að segja, og hann er að koma til Íslands í fyrsta sinn. Honum kynntist ég í Vínarborg í fyrra þegar við komum fram saman í Konserthúsinu þar, fluttum sönglög eftir Schubert, Schumann og fleira skemmtilegt. Í lokin stakk hann upp á að ég spilaði etýðu eftir Philipp Glass, bara óvænt, og hann impróviseraði laglínu yfir. Hún var við ljóð eftir Muhamed Ali boxara, svona er hann flippaður og frjáls, ekki bara með fallegustu rödd sem maður heyrir heldur hefur líka þetta opna ele­ment sem er svo mikilvægt á svona hátíð, fyrir hið óvænta sem á að vera þar. Svo skemmtilega vill til að þegar ég vann BBC-verðlaunin um daginn vann hann þau í ljóðaflokknum.“



Víkingur Heiðar lýsir því sem draumi að Florian Boesch sé að koma til Íslands og hið sama gildi um alla hina flytjendurna. „Við erum með fremsta tónskáld minnar kynslóðar í Bretlandi, Mark Simpson. Hann hefur samið óperur fyrir Konunglega óperuhúsið í Lundúnum og er líka frábær klarínettuleikari. Ég kynntist honum fyrir tilviljun fyrir tíu árum í Oxford þegar konan mín var að læra þar. Simpson er ótrúlegt séní, það getur allt gerst þegar hann er annars vegar. Hann spilar í Karnivali dýranna, á lokatónleikunum og í Mengi – hann er hér og þar.“



Einn flytjandi í viðbót, Víkingur Heiðar segir eina áhugaverðustu persónuna vera unga konu. „Yura Lee var algert undrabarn á fiðlu, spilaði sem einleikari hjá New York fílharmóníunni og ferðast með henni um allan heim. Sagði skilið við fjölskyldu sína þegar hún var fimmtán ára, því hún aðhylltist ekki sömu lífsskoðanir, og fylgdi henni ekki til baka til Kóreu, þannig að hún hefur séð um sig sjálf síðan. Fór í bakpokaferðalag um Evrópu í eitt ár og hætti að spila. Hún er eftirsóttur kammermúsíkant og hefur unnið stærstu víólukeppni heims. Svo er hún líka raftónlistarmaður, alltaf á flakkinu, einstaklega skemmtileg og villt, eiginlega heillandi ráðgáta. Hún fær að gera eitthvað með honum Roedelius sem er 85 ára raftónlistarmaður og mikil goðsögn í þeim kreðsum. Það verður í Mengi. Ég kem eitthvað að því líka. Ég spila mest á hátíðinni og Yura Lee næstmest. Hún spilar og spilar, virðist ekki hafa fyrir neinu og aldrei þurfa að sofa.“

 

Gaman að gera eitthvað frjálst

Snúum okkur að tónlistinni. Þar er margt spennandi að sögn Víkings Heiðars. „Við erum með fullt af klassískum, rómantískum verkum, algerum perlum en oft í nýjum útsetningum og búningi. Ég vil ekki endilega að fólk fatti hvað er nýtt og hvað er gamalt, heldur renni það bara saman. Ef við spilum af sannfæringu og krafti og á okkar forsendum þá verður allt nýtt, hvort sem það er popp, djass, Mozart eða Bach. Því er ég að miðla með því hvernig ég stilli upp verkunum á dagskránni. Það er svo gaman að gera eitthvað frjálst.“

 

Verðandi Noregskonungur

Ekki er hægt að sleppa Víkingi Heiðari án þess að spyrja hvernig litli stubbur hafi það, en hann og Halla Odd­ný Magnús­dótt­ir, kona hans, eignuðust son þann 3. apríl. „Hann er bara yndislegur,“ svarar faðirinn stoltur. „Hann fékk nafn um helgina, heitir Ólafur Magnús Víkingsson. Hallgrímur Helgason sendi okkur kveðju á netinu og sagði: Þetta er verðandi Noregskonungur því þetta eru Noregskonunganöfn. En svo eru þetta nöfnin á öfum hans og einum langafa sem koma þarna saman. Þeir eru svo yndislegar manneskjur að okkur fannst þetta rétta nafnið. Drengurinn er fjörmikill og sterkur. Hver veit nema við Íslendingar tökum yfir Noreg í framtíðinni og hann verði konungur!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×