Erlent

Fundu kókaín í flugvél forseta Brasilíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Bolsonaro við komuna til Osaka í Japan þar sem G20-ríkin funda.
Bolsonaro við komuna til Osaka í Japan þar sem G20-ríkin funda. Vísir/EPA
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, krefst strangrar refsingar yfir flughermanni sem var gripinn með tugi kílóa af kókaíni á Spáni þegar hann ferðaðist með forsetaflugvél. Forsetinn hefur gert baráttu gegn fíkniefnahringjum að einu helsta baráttumáli og því þykir fíkniefnafundurinn sérstaklega neyðarlegur fyrir hann.

Alls fundust 39 kíló af kókaíni sem flughermaðurinn hafði haft með sér um borð í forsetaflugvélinni í opinberri ferð yfir Atlantshafið, að sögn New York Times. Vélin flutti brasilíska embættismenn sem undirbjuggu ferð Bolsonaro á G20-fundinn í Japan. Bolsonaro flaug sjálfur með annarri forsetaflugvél.

Vélin millilenti í Sevilla á Spáni þar sem fíkniefnin fundust í tösku flughermannsins. Þar var hann hnepptur í varðhald, grunaður um smygl á fíkniefnum.

Bolsonaro segir framferði hermannsins óásættanlegt og segist ætla að krefjast strangrar refsingar yfir honum. Hann hafi skipað varnarmálaráðuneyti sínu að vinna með spænskum yfirvöldum að rannsókn málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×