Innlent

Hugmyndir eru uppi um að byggja Latabæjargarð í Borgarnesi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Latabæjarsafn er að finna í Borgarnesi.
Latabæjarsafn er að finna í Borgarnesi. Vísir/MHH
Hugmyndir eru uppi um að byggja upp Latabæjargarð í Borgarnesi en hugmyndasmiður verkefnisins, Magnús Scheving er úr Borgarnesi. Nú þegar hefur verið komið upp Latabæjarsafni í bæjarfélaginu, sem vekur verðskuldaða athygli. Í Borgarnesi er líka stærsta lögregluhúfu safn landsins.

Latabæjarsafnið er í einu skoti í húsnæði Fornbílaklúbbs Borgarfjarðar í Brákarey í Borgarnesi þar sem einnig er samgöngusafn og lögregluhúfusafn. Allar þekktustu persónurnar úr Latabæ og leikmunir úr þáttunum eru á safninu.

„Við sjáum að  sumar af þessum persónum eru einfaldlega úr bæjarlífinu í Borgarnesi, Stíma símalína er til dæmis tekin beint upp úr einni starfsstúlkunni á símstöðinni, eins bæjarstjórinn okkar, þetta var samtímafólk Magga hérna í æsku, hann hljóp með póstskeytin og var mikið inn í þessu,“ segir Guðmundur Skúli Halldórsson, sem á sæti í sýningarnefnd safnsins

„Það sem er eiginlega skemmtilegast við þetta er að Maggi kom og setti þetta upp sjálfur, hann er náttúrulega hörku smiður og setti upp þessa skemmtilegu sýningu,“ bætir Guðmundur Skúli við.

Guðmundur Skúli segir að mikið af útlendingum komi í safnið til að skoða Latabæ og þá séu Íslendingar líka mjög áhugasamir um safnið, ekki síst yngri kynslóðin, sem þekkir allar persónurnar.

„Þetta er rosalegur heiður sem Maggi sýndi okkur og vonandi byrjun af einhverju meiru“.

En stendur til að gera eitthvað meira með Latabæ í Borgarnesi?

„Já, það eru uppi hugmyndir um það að byggja upp Latabæjargarð hér í Borgarnesi, það er hér fólk, sem stendur að því, meðal annars Maggi sjálfur,“ segir Guðmundur Skúli.

Í safninu er líka glæsilegt lögguhúfusafn Tedda löggu, eða Theodórs Þórðarsonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns í Borgarnesi. Á safninu er líka gamalt lögregumóturhjól. Safnið í Borgarnesi er opið alla daga vikunnar yfir sumartímann frá 13:00 til 17:00 þar sem hægt er að skoða Latabæjarsafnið, lögguhúfusafnið og fallega fornbíla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×