Í gær kom fram í tilkynningu Eflingar að Eldum rétt hafi hafnað sáttarboði Eflingar í sáttafundi í máli félagsins gegn fyrirtækinu vegna meðferðar á fjórum rúmenskum verkamönnum. Eldum rétt var stefnt á grundvelli laga um keðjuábyrgð og nam sáttatilboðið fjórum milljónum króna að sögn Eflingar.
Sjá einnig: Eldum rétt hafnaði sáttatilboði Eflingar í máli Rúmena
Fjögur fyrirtæki sem eru sögð hafa keypt vinnu af starfsmannaleigunni Menn í vinnu fengu kröfu frá Eflingu með vísun í lög um keðjuábyrgð. Hin þrjú fyrirtækin féllust á hana án andmæla, og voru þau þess vegna ekki hluti af stefnu Eflingar.
Starfsmennirnir sem um ræðir unnu að sögn framkvæmdastjóra Eldum rétt, hjá fyrirtækinu í fjóra daga.
Í tilkynningu frá Eldum rétt segir að Efling hafi á fundinum tekið skýrt fram að engin önnur lausn væri til að ljúka málinu en að Eldum rétt myndi greiða kr. 4.404.295 vegna málsins en af þeirri fjárhæð væru þrjár milljónir í miskabætur.
Hafnaði öllum tillögum Eldum rétt
Eldum rétt segir að málið snúist í raun um hvort starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu hafi verið heimilt að draga frá launum verkamannanna kostnað vegna þjónustu auk fyrirframgreiddra launa. Endurgreiðsla á þeim fjárhæðum feli í sér tvígreiðslur og nái ákvæði laga um keðjuábyrgð ekki til slíkra krafna.Þá hafi Efling hafnað að veita frekari upplýsingar sem Eldum rétt óskaði eftir og hafi einnig hafnað öllum frekari tillögum Eldum rétt til að ljúka málinu á fundinum.
Fréttatilkynningu Eldum rétt ehf. má lesa hér að neðan
Vegna tilkynningar Eflingar frá því fyrr í gær vill Eldum rétt koma eftirfarandi atriðum á framfæri. Á föstudaginn átti framkvæmdastjóri Eldum rétt ehf. fund með framkvæmdastjóra og formanni Eflingar vegna þess dómsmáls sem hefur verið höfðað af fjórum rúmenskum einstaklingum gegn starfsmannaleigunni Menn í vinnu ehf. og Eldum rétt ehf.Tilgangur fundarins var að reyna að leysa málið í sátt og samlyndi með Eflingu. Á fundinum lagði Efling fram tilboð, sem fól í sér að Eldum rétt ætti að greiða kr. 4.404.295 vegna málsins. Af þeirri fjárhæð voru 3 milljónir kr. í miskabætur. Efling tók skýrt fram að engin önnur lausn væri til að ljúka málinu.
Eldum rétt vill koma á framfæri að málið snýst í raun um hvort starfsmannaleigunni hafi verið heimilt að draga frá launum þessara einstaklinga kostnað vegna þjónustu, sem þeir nutu og fyrirframgreidd laun, sem óumdeilt er að þeir fengu. Endurgreiðsla á þessum fjárhæðum til einstaklinganna felur í sér tvígreiðslur til þeirra og ákvæði laga um keðjuábyrgð nær ekki til slíkra fjárkrafna.
Stærsti hluti kröfunnar var um miskabætur vegna aðstæðna og aðbúnaðar starfsmannanna. Vert er að taka fram að ekki er um að ræða sömu starfsmenn Manna í vinnu ehf. og komið hafa fram í fjölmiðlum hingað til. Þar sem athugasemdir Eflingar um aðstæður starfsmannanna beindust ekki að starfsumhverfi eða aðstæðum hjá Eldum rétt, óskaði Eldum rétt eftir því að fá nánari upplýsingar þar um. Starfsmennirnir höfðu aðspurðir, staðfest við Eldum rétt að þeirra hagir væru í lagi. Efling hafnaði að veita frekari upplýsingar um aðstæður starfsmannanna. Engin gögn liggja því til grundvallar að starfsmenn sem unnu hjá Eldum rétt hafi verið látnir sæta ósæmilegri meðferð eða brotið gegn réttindum þeirra, eins og látið er liggja að í tilkynningu Eflingar. Efling hafnaði öllum frekari tillögum Eldum rétt til að ljúka málinu á fundinum.
Í lok dagsins sendi framkvæmdastjóri Eldum rétt tölvupóst til framkvæmdastjóra Eflingar, þar sem afstaða Eldum rétt var rakin og samningsvilji ítrekaður. Það sé einlægur vilji Eldum rétt að standa undir keðjuábyrgð sem notendafyrirtæki samkvæmt lögum um starfsmannaleigur beri.