Bakþankar

Brauð og leikar

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Margir bændur hér í suðurhéruðum Spánar eru í viðskiptum við stórfyrirtækið Bayer. Tómatræktendur verða að kaupa frá þeim sérhannaðar plöntur og síðan fræ fyrir hverja uppskeru. Kornið kostar um 70 krónur. Yfir þessar plöntur verða þeir að hella skordýraeitri sem í flestum tilfellum nægir aðeins til að halda plágum í skefjum. Lítrinn kostar um tuttugu og átta þúsund krónur. Plönturnar vaxa hraðar en þær hefðbundnu og verða menn því að kaupa þær til að vera samkeppnishæfir og eru því dæmdir inn í þetta miskunnarlausa viðskiptamódel. Hefðbundna plantan mun líklegast hverfa. Bayer og þrjú önnur fyrirtæki eru nánast einráða um ræktun í heiminum.

Nýlega tók Bayer yfir bandaríska fyrirtækið Monsanto með blessun Evrópusambandsins. Það er því varla að Þjóðverjum þessum sé annt um orðspor sitt. Monsanto hannaði nefnilega efnavopnin sem Bandaríkjaher stráði yfir frumskóga í Víetnam. Um fjögur þúsund létust og hálf milljón barna fæddust alvarlega sködduð. Fyrirtækið hefur staðið í fjölmörgum réttarhöldum, ekki síst vegna skordýraeiturs sem inniheldur glyphosate og hefur valdið alvarlegu heilsutjóni, spillt umhverfi, nánast útrýmt býflugum á sumum svæðum og eitur þess borist í grunnvatn. Monsanto hefur eytt háum fjárhæðum til þess eins að koma í veg fyrir að erfðabreytt matvæli séu sérstaklega merkt.

Kannski fer eitthvað af þessum peningum í að þagga niður í spænskum fjölmiðlum en þeir minnast ekki á þennan samruna sem mun marka líf svo margra. Hins vegar var annar samruni fyrirferðarmikill í umræðunni um daginn þegar Sergio Ramos og Pilar Rubio giftu sig. Beckhamhjónin mættu og allt. Viktoría var verulega lekker.






×