Golf

Ólafía og Woods léku miklu betur en í gær en það dugði ekki til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafía og Woods voru saman í Wake Forest-háskólanum vestanhafs.
Ólafía og Woods voru saman í Wake Forest-háskólanum vestanhafs. MYND/GOLF.IS/SETH
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Cheyenne Woods eru úr leik á Dow Great Lakes Bay Invitational-mótinu sem er hluti af LPGA-mótaröðinni. Leikið er á Midland-vellinum í Michigan.

Ólafía og Woods léku mun betur í dag en í gær en það dugði ekki til að komast í gegnum niðurskurðinn.

Eftir fyrsta hringinn voru Ólafía og Woods á sex höggum yfir pari og áttu afar veika von um að komast í gegnum niðurskurðinn.

Í dag léku þær stöllur á þremur höggum undir pari. Þær fengu fjóra fugla og aðeins einn skolla á öðrum hringnum. Þar taldi betra skor á hverri holu en í gær skiptust kylfingarnir á að slá einn bolta.

Ólafía og Woods léku samtals á þremur höggum yfir pari og enduðu í 67. sæti af 71 liði. Niðurskurðurinn miðaðist við fjögur högg undir pari.

Mikil spenna er á toppnum en þrjú lið eru efst og jöfn á samtals tíu höggum undir pari. Þetta eru Norður-Írinn Stephanie Meadow og Ítalinn Giulia Molinaro, Frakkarnir Celine Boutier og Karine Icher og hinar bandarísku Paula Creamer og Morgan Pressel.

Bein útsending frá þriðja hring mótsins hefst klukkan 20:00 á Stöð 2 Sport 4 á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×