Erlent

Myndbönd af grímuklæddum árásarmönnum vekja óhug í Hong Kong

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndböndum sem tekin voru upp á lestarstöðinni í gær.
Skjáskot úr myndböndum sem tekin voru upp á lestarstöðinni í gær. Skjáskot/Twitter
Að minnsta kosti 45 eru særðir, þar af einn lífshættulega, eftir að hvítklæddir menn með grímur fyrir vitum sér réðust á mótmælendur á lestarstöð í Hong Kong seint á sunnudagskvöld. Myndbönd af atvikinu sem birtust á samfélagsmiðlum í gær hafa vakið óhug meðal íbúa Hong Kong en margir telja að þar hafi glæpagengi verið að verki.

Í myndböndunum má sjá mennina brjóta sér leið inn á lestarstöðina í bænum Yuen Long, elta þar farþega og lemja þá með bareflum á brautarpöllum og inni í lest. Margir á lestarstöðinni voru á heimleið eftir að hafa tekið þátt í fjöldamótmælum gegn ríkisstjórn Hong Kong á sunnudag. Þúsundir manna söfnuðust saman við mótmælin, sem lyktaði með hatrömmum átökum mótmælenda og lögreglu þar sem táragasi og gúmmíkúlum var beitt.

Á lestarstöðinni brutust einnig út harkaleg átök. Blaðakonan Gwyneth Ho streymdi beint frá vettvangi í gærkvöldi en í myndbandi hennar má sjá þegar mennirnir ráðast að henni.

Atvikið hefur vakið reiði meðal íbúa Hong Kong, einkum þeirra sem höfðu verið viðstaddir mótmælin í gærkvöldi. Mótmælendur hafa gagnrýnt lögreglu harðlega fyrir að hafa verið lengi að svara útkalli vegna átakanna en hvítklæddu mennirnir voru á bak og burt þegar lögreglu bar að garði um klukkan ellefu að staðartíma.

Lam Cheuk-ting, þingmaður stjórnarandstöðunnar á þingi Hong Kong, var á lestarstöðinni þegar átökin brutust út. Hann gagnrýndi lögreglu fyrir seinagang í viðtölum við blaðamenn eftir árásina og sagði flokk sinn nú rannsaka hvort árásarmennirnir tilheyrðu glæpagengi. Ríkisstjórn Hong Kong fordæmdi árásina í yfirlýsingu en enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins.

Fjöldamótmæli hafa farið fram í Hong Kong síðan um miðjan júní. Upphaflega var blásið til mótmælanna vegna framsalsfrumvarps, sem hefði leyft framsal til Kína, en mótmælendur krefjast nú aukins lýðræðis í Hong Kong. Þá krefjast ákveðnir hópar sjálfstæðis héraðsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×