Golf

Magnaður Lowry í forystu á nýju vallarmeti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Írinn Lowry á best annað sæti á risamóti, hann náði þeim árangri á Opna bandaríska árið 2016. Það stefnir allt í fyrsta risatitilinn á morgun
Írinn Lowry á best annað sæti á risamóti, hann náði þeim árangri á Opna bandaríska árið 2016. Það stefnir allt í fyrsta risatitilinn á morgun vísir/getty
Shane Lowry er með fjögurra högga forskot fyrir lokahring Opna breska risamótsins eftir stórbrotna frammistöðu á þriðja hringnum í dag.

Lowry spilaði frábærlega, steig ekki feilnótu og fékk átta fugla í hringnum í dag. Það þýddi að hann fór á 63 höggum sem er nýtt vallarmet á Dunluce Links vellinum á Royal Portrush eftir breytingar. Rory McIlroy á betra skor, 61 högg, frá 2005 en vellinum hefur verið breytt frá þeim tíma.





Englendingurinn Tommy Fleetwood fór einnig gallalausan hring, tapaði ekki einu einasta höggi, en hann fékk þó aðeins fimm fugla og náði því ekki að halda í við Lowry. Frammistaða Fleetwood er þó aðeins höggi frá gamla vallarmetinu svo það var ekki hægt að biðja um mikið meira frá Englendingnum, Lowry var einfaldlega á öðrum stalli í dag.





Fyrir daginn leiddi Lowry ásamt Bandaríkjamanninum J.B. Holmes. Holmes var mjög stöðugur í upphafi en fékk tvo skolla í röð á 13. og 14. holu sem gerðu honum erfitt fyrir. Fugl á lokaholunni tryggði honum þó einum í þriðja sæti á 10 höggum undir pari.

Þeir Justin Rose og efsti maður heimslistans Brooks Koepka eru jafnir í 4.- 5. sæti á níu höggum undir pari. Rose náði glæsilegum erni á 12. holu og Koepka þurfti fugla á síðustu tveimur holunum til þess að halda sér í baráttunni.





Það verður þó að segjast að Lowry er kominn með níu fingur á silfurkönnuna, hann þarf að eiga slæman dag á morgun og aðrir að leika frábærlega til þess að skáka honum.

Útsending frá lokahringnum hefst klukkan 8:00 í fyrramálið á Stöð 2 Golf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×