Lífið

Vel heppnað Norðanpaunk á Laugarbakka

Steingerður Sonja Þórisdóttir skrifar
Hljómsveitin Post Performance Blues Band kom fram á hátíðinni, en leikonan Álfrún Helga Örnólfsdóttir sést hér á sviðinu.
Hljómsveitin Post Performance Blues Band kom fram á hátíðinni, en leikonan Álfrún Helga Örnólfsdóttir sést hér á sviðinu. Myndir/Gallerý Undirheimar
Svokallað ættarmót paunkara var haldið sjötta árið í röð á Laugarbakka í Miðfirði. Samkoman fór vel fram þó nokkuð hafi borið á löskuðum gíturum og rifnum trommuskinnum.

Rúmlega 400 skráðir meðlimir nutu fimmtíu og eins tónlistaratriðis á þremur dögum. Eins og alltaf var áherslan á óvanalega íslenska jaðartónlist, en nokkrar erlendar sveitir voru einnig á dagskránni á hátíðinni í ár.

Þar á meðal var tvíeykið Hirs frá Bandaríkjunum sem flutti með aðstoð drynjandi trommuheila, gargandi öskra, rafmagnsgítarveggjar og búta úr Madonnu-lögum boðskap um umburðarlyndi, geðheilbrigði og gagnkvæma virðingu.

Dagskrána opnaði Þóranna, einnig þekkt sem Trouble, klukkan sex á föstudegi og henni lauk 58 klukkutímum seinna við seiðandi athöfn NYIÞ við varðeld Grettisbóls. Þess má geta að 48 sveitir voru bókaðar á hátíðina, en 51 sveit kom fram, þar á meðal sveitin Úppss sem varð til á staðnum vegna prentvillu í dagskránni.

Skipuleggjendur segja hátíðina hafa gengið alveg ótrúlega vel og hlakka til að endurtaka leikinn að ári.

Allt skipulag Norðanpaunks er í höndum sjálfboðaliða sem samanstanda af hljómsveitameðlimum og gestum hátíðarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.