Golf

Þrír fuglar á síðari níu holunum hjá Ólafíu sem er á einu höggi undir pari eftir fyrsta hringinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék vel á fyrsta hringnum í Portland.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék vel á fyrsta hringnum í Portland. vísir/getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur, lék vel á síðari níu holunum á Cambia Portland Class-mótinu sem er hluti af LPGA mótaröðinni.

Mótið er það áttunda hjá Ólafíu á þessu sterkasta mótaröð heims en einungis einu sinni hefur Ólafía náð að komast í gegnum niðurskurðinn.

Ólafía spilaði fyrri níu holurnar á einu höggi yfir pari eftir að hafa fengið átta pör og einn skolla á fyrstu níu holunum.

Það var hins vegar allt annað uppi á teningnum á síðari níu holunum. Þar byrjaði Ólafía á fjórum pörum áður en fyrsti fuglinn kom og Ólafía komin á parið.

Hún fékk svo tvo aðra fugla á 7. og 8. holunni en skolli á 9. og átjándu holu dagsins gerði það að verkum að Ólafía er á einu höggi undir pari eftir fyrsta hring.

Annar hringurinn fer fram á morgun en þegar þetta er skrifað er Ólafía í 41. sætinu. Þó eru allir kylfingarnir ekki búnir með átján holur dagsins.

Sýnt verður frá mótinu í beinni útsendingu á Stöð 2 Golf á morgun og hefst útsending klukkan 22.30. Útsending frá deginum í dag hefst nú klukkan 21.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×